133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:41]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir mikið mál úr því að þrengt sé að landbúnaðinum með uppkaupum á jörðum og háu jarðaverði. Ég get tekið undir það að hluta til að það veldur áhyggjum, sumpart af því að kynslóðaskipti geta verið erfiðari en þau voru á bæjum, en í heild sinni getur þetta verið mjög mikilvægt fyrir landbúnaðinn og jarðir eru seldar á sanngjarnara verði. Ef við förum 10 ár aftur í tímann voru þær óseljanlegar og mjög verðlitlar. Nú er það breytt.

Við berum það mikla virðingu fyrir eignarréttinum, ég og hv. þingmaður, að við ætlumst ekki til þess að maður sem vill stækka bú sitt taki og leggi undir sig jörð nágrannans. Um það eru skýrar reglur. Íslenskar bújarðir eru tiltölulega stórar. Það liggur fyrir að kúabúum hefur fækkað, þau eru orðin svona 700–800. Sauðfjárbúum mun fækka og þau eru ekki mörg mjög stór. Þau eru á svæðum sem hafa mikið land og svo hafa bændur náttúrlega afnot af afréttum sínum áfram eins og þeir hafa gert. Landfræðilega eru þeir því ekki illa settir. Búin stækka og þau tæknivæðast og breytast í samtímanum. Það er bara hlutur sem á að geta gerst inni í þessu. Ég geri mér grein fyrir áhyggjum af jarðaverðinu en það hefur líka styrkt hag bænda að þeir eru með miklu verðmætari eignir í sínum höndum til að byggja upp og efla fyrir landbúnað. Þeir eru náttúrlega á þessum sviðum landbúnaðarins að styrkja sig mjög mikið undir það sem kann að verða hér þegar WTO-samningar líta dagsins ljós, tollar lækka, stuðningur innan lands verður að breytast og landbúnaðurinn er að nýta sér þau ár sem hann hefur til að þróa sig mjög ört til að verða markaðslega sterkari eining.