133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:45]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða tillögur sem settar eru fram í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að lækka matarverð til íslenskra neytenda, tillögur sem komnar eru í kjölfar þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar um aðgerðir til að lækka matarverð. Það sem hér er verið að fjalla um eru gagnkvæmir samningar um markaðsaðgang, annars vegar Íslands inn á Evrópusambandslöndin og hins vegar Evrópusambandslandanna inn á Ísland. Um er að ræða að við fáum aukna útflutningsheimild fyrir lambakjöt sem nemur 500 tonnum, skyr upp á 380 tonn, smjör upp á 330 tonn og pylsur upp á 85 tonn. Í staðinn fáum við um 870 tonna innflutningsheimild fyrir nautakjöt, svínakjöt, alifuglakjöt, pylsur, unnar kjötvörur, skinku, kartöflur, rjúpur og osta.

Ég legg áherslu á hér er um að ræða gagnkvæmar innflutnings- og útflutningsheimildir á milli þessara landa allra og það skiptir auðvitað mjög miklu máli í þessu sambandi og gleymdist nú í öllum æsingnum hér í haust þegar þingsályktunartillaga Samfylkingarinnar var til umræðu. Það er auðvitað hluti af aðgerðunum að lækka tolla, þessu fylgir að sjálfsögðu gagnkvæmur aðgangur.

Þær aðgerðir sem hér eru boðaðar munu vonandi bæta hag íslenskra neytenda og gera það örugglega ef — og ég legg áherslu á ef — samkeppniseftirlit verður í lagi. En ríkisstjórnin gerir því miður ekki ráð fyrir því að efla samkeppnis- og verðlagseftirlit eins og var og er ein af fimm megintillögum Samfylkingarinnar. Það er ekki að ástæðulausu að Samfylkingin lagði einmitt þetta til í haust í tillögum sínum og það hefur sannast fyrir landanum að ástæðan var rík því að við fundum tilhneiginguna hjá versluninni fyrir skömmu, upp úr áramótunum, til þess að fara að hækka álagningu á vörum sínum, sem var síðan dregið til baka eftir að mótmæli voru höfð uppi. Það er því vissulega ástæða til þess að efla samkeppniseftirlit á Íslandi.

Því miður lítur út fyrir að íslenskir neytendur muni ekki hafa jafnmikinn hag af þessum væntanlegu lækkunum á tollum og ríkisstjórnin boðaði þegar hún kynnti tillögur sínar, a.m.k. er það mat markaðarins að hagur neytenda eða matvælaverð muni lækka innan við 10%, en 10% eru þó 10%, og það er gott svo langt sem það nær.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessi innflutningskvóti mun hafa áhrif á matarverð á Íslandi, það sjáum við ekki fyrr en til kastanna kemur. Það verður líka fróðlegt að sjá hvaða verð fæst fyrir þær matvörur sem við Íslendingar höfum heimild til þess að flytja út. Samkvæmt upplýsingum sem við fengum í landbúnaðarnefnd í morgun munu líkur á því að verð fyrir a.m.k. smjör verði ásættanlegt og það er hið besta mál. Um annað vitum við ekki, annað en að hingað til hefur verð fyrir lambakjöt í rauninni ekki verið ásættanlegt og alls ekki t.d. á Ameríkumarkaði ef við skoðum það verð sem íslenskir bændur fá í sinn hlut, því þrátt fyrir að íslenskt lambakjöt seljist háu verði út úr búðum í Bandaríkjunum er skilaverðið til bænda ákaflega lágt. Samkvæmt því sem maður hefur heyrt á bændum vilja þeir flytja út lambakjöt til að grynnka á framboði lambakjöts á íslenskum markaði til þess að verðið hér lækki ekki, sem er viðhorf sem mér fellur ekki beinlínis í geð. Mér fyndist nær að leita leiða til þess að afurðaverð til bænda yrði ásættanlegt, og til neytenda jafnframt, í staðinn fyrir að styrkja útflutning á íslensku lambakjöti beint og óbeint eins og við gerum með því að styrkja markaðsaðgerðir sem aftur á móti leiðir til þess að verð til íslenskra neytenda helst hátt áfram.

Ég er sammála því sem hér hefur fram komið að íslenskar landbúnaðarafurðir eru afskaplega góðar og margar hverjar betri en sambærilegar vörur erlendis. Það er þó ekki svo um allar landbúnaðarafurðir, margar erlendar landbúnaðarafurðir eru ákaflega góðar og hollar og vonandi fáum við að njóta þess á íslenskum markaði í ríkari mæli í framtíðinni. Ég held að við þurfum ekki að óttast gæði erlendrar vöru nema ef svo heldur áfram í íslensku samfélagi sem hefur því miður verið undir stjórn núverandi ríkisstjórnar undanfarin ár, að misskipting í samfélaginu aukist jafnt og þétt þannig að Íslendingar hafi ekki efni á að kaupa sér úrval íslenskrar landbúnaðarframleiðslu.

Það er auðvitað þannig, virðulegur forseti, að fjöldi fólks meðal almennings á Íslandi hefur því miður ekki efni á að kaupa sér nema mat af allra ódýrasta tagi. Það fólk hefur í rauninni ekki efni á að velja það sem vitað er að er betra og hollara, því ýmsir búa við afar bág kjör. Við vitum að bilið á milli manna hér á landi hefur aldrei verið nándar nærri eins breitt og það er núna og hefur breikkað undir stjórn núverandi ríkisstjórnar sem vonandi fer fljótlega frá.

Það frumvarp sem hér er til umræðu er gott svo langt sem það nær og vonandi verður reynslan af því góð.