133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:58]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú öðru nær — þessu landi hefur verið afskaplega vel stjórnað. Það hafa orðið þvílíkar framfarir hjá þjóðinni síðan 1991, þvílíkar framfarir. Við munum þann tíma þegar hér var atvinnuleysi, það vantaði atvinnu. Það er ekkert atvinnuleysi í dag, ekkert. Við erum að flytja inn fólk til að vinna fyrir okkur hér.

Hvað varðar Austurland þá ég veit að Austfirðingar eru afskaplega ánægðir með þær aðgerðir sem hafa verið gerðar á Austurlandi. Þangað er fólk að flytja aftur, það er flytja aftur heim til að vinna heima í héraði. Menntað fólk er að koma aftur heim. Þegar verið er að tala um að í álverinu í Reyðarfirði séu bara karlastörf og láglaunastörf þá er það af og frá. Þetta eru ekki síður störf fyrir konur og það eru líka mjög mörg afleidd störf af hverju starfi sem þar er.

Ég man þá tíð þegar ég sem þingmaður fór með fjárlaganefnd austur á land áður en farið var í virkjunarframkvæmdirnar. Það voru mjög erfiðir tímar. Ég man líka eftir því þegar byrjað var að framkvæma og maður kom austur og fann alla þá bjartsýni og þann kraft sem þar var, alls staðar verið að byggja, aukin atvinnutækifæri. Þetta var það sem skipti Austfirðinga miklu máli, þetta er svo sannarlega að skila sér og ríkisstjórnin hefur svo sannarlega verið að vinna afskapalega farsæl og góð störf á hverju einasta ári. Hér er verið að lækka skatta, hér er verið að auka kaupmáttinn, hér eru nóg störf og við þurfum ekki að kvarta.