133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

stuðningur við atvinnurekstur kvenna.

579. mál
[13:43]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Svar við fyrri spurningunni: Nokkur verkefni eru í gangi til að hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri. Niðurstöður skýrslu Byggðastofnunar frá árinu 2005, Konur og stoðkerfi atvinnulífsins, benda til þess að ýmislegt hafi áunnist á undanförnum árum. Meðal annars kom í ljós að styrkir til atvinnumála kvenna og Lánatryggingarsjóður kvenna hafa skipt sköpum fyrir frumkvöðlastarf og nýsköpun meðal kvenna. Þá hefur heilmikið áunnist vegna starfa atvinnu- og jafnréttisráðgjafa Byggðastofnunar og félagsmálaráðuneytisins en hlutverk hans er að efla þátttöku kvenna í atvinnurekstri og veita þeim rekstrarráðgjöf.

Einnig er mikill ávinningur af verkefnum á vegum Impru og Viðskiptaháskólans á Bifröst, þ.e. Máttur kvenna og Brautargengi. Impra nýsköpunarmiðstöð hefur boðið upp á námskeiðið Brautargengi frá árinu 1996 en 2003 var það haldið í tíunda sinn og þá í fyrsta skipti á landsbyggðinni. Námskeiðið er sérsniðið fyrir konur um gerð viðskiptaáætlana og um stofnun og rekstur fyrirtækja. Á sjötta hundrað kvenna hafa lokið námskeiðinu og eru flestar síðan með fyrirtæki í rekstri. Félag kvenna í atvinnurekstri hefur haft aðsetur hjá Impru nýsköpunarmiðstöð síðan árið 1999 og fengið þar ýmiss konar þjónustu. Markmið félagsins er að sameina konur í atvinnurekstri, stuðla að aukinni miðlun á viðskiptatengdum fróðleik milli félagskvenna og efla samstöðu þeirra og samstarf. Einnig að auka sýnileika og tækifæri kvenna í viðskiptalífinu og stuðla að virðingu og verðskuldaðri athygli samfélagsins á framlagi fyrirtækja sem konur reka. Handleiðsla er þjónusta sem Impra nýsköpunarmiðstöð býður öllum frumkvöðlum endurgjaldslaust. Markmið handleiðslu er að veita frumkvöðlum leiðsögn við þróun viðskipta- og vöruhugmynda við stofnun og rekstur fyrirtækis og gerð viðskiptaáætlana.

Impra nýsköpunarmiðstöð hefur nýverið tekið upp þá þjónustu að bjóða sérstaka aðstoð til kvenna við gerð styrkumsókna og þróun viðskiptahugmynda. Styrkir til atvinnumála kvenna hafa verið veittir frá árinu 1991. Sérstakt fjármagn hefur verið veitt til eflingar atvinnumálum kvenna og hefur félagsmálaráðuneytið annast þessar styrkveitingar sem veittar eru einu sinni á ári.

Lánatryggingarsjóður kvenna hóf starfsemi 1997 sem þriggja ára tilraunaverkefni. Hlutverk Lánatryggingarsjóðs kvenna er að styðja konur til nýsköpunar og þátttöku í atvinnulífi með því að veita ábyrgðir á allt að helmingi lána sem þær taka hjá lánastofnun til að fjármagna tiltekið verkefni. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur einnig beint og óbeint komið að fjölmörgum ráðstefnum og viðburðum til styrktar atvinnurekstri kvenna. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar Virkjum kraft kvenna sem haldin var nú í janúar.

Svar við síðari spurningunni: 19. töluliður byggðaáætlunar hljóðar svo:

„Stuðningur við atvinnurekstur kvenna: Unnið verði að því að efla þátt kvenna í atvinnurekstri með ráðgjöf og námskeiðum. Hugað verði að leiðum til þess að gera stoðkerfi atvinnulífsins aðgengilegra fyrir konur.“

Samkvæmt þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006–2009 hljómar framkvæmd þessa liðar á þessa leið:

„Breytingar í atvinnuháttum og atvinnulífi með fækkun starfa í frumvinnslugreinum hafa einkum komið niður á atvinnumöguleikum kvenna á landsbyggðinni. Þá hafa kannanir ítrekað sýnt að mjög hallar á konur í frumkvöðlastarfi og fyrirtækjarekstri. Ein af ástæðunum fyrir því hefur verið talin sú að konur eigi af ýmsum ástæðum ekki eins greiðan aðgang að stoðkerfi atvinnulífsins og karlar. Iðnaðarráðuneyti fól Byggðastofnun í apríl 2005 að vinna úttekt á því hvaða árangur hefði náðst undanfarin ár af verkefnum sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Markmiðið er að niðurstöðurnar geti orðið grundvöllur að frekari aðgerðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri. Mikilvægt er að aðgerðum til stuðnings atvinnureksturs kvenna á landsbyggðinni sé fylgt eftir heima fyrir svo árangur skili sér.“

Ábyrgð framkvæmdarinnar er á höndum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Aðrir þátttakendur eru Byggðastofnun, félagsmálaráðuneyti, Jafnréttisstofa, atvinnuþróunarfélög, skólastofnanir, Iðntæknistofnun og Impra o.fl. Því skal bæta við að lokum að mat er lagt á árangur í árlegum framvinduskýrslum sem lagðar eru fyrir Alþingi.