133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

skýrsla Hagstofunnar um lágtekjumörk og tekjudreifingu 2003--2004.

[11:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég held að hæstv. forsætisráðherra ætti að hafa miklar áhyggjur af trúverðugleika sínum. Við erum einfaldlega að ræða svör hans, en þá eru þau svör og þær tölur sem hann gaf upp í tíð sinni sem hæstv. fjármálaráðherra jafnvel orðnar rangfærslur í umræðunni nú, þegar verið er að ræða þær. Við skulum huga að því að þó svo við slepptum fjármagnstekjum og skoðum svör hæstv. ráðherra kemur fram að ójöfnuðurinn á því tímabili sem hann tiltók hefur aukist meira en á tímabili Reagan-stjórnarinnar í Bandaríkjunum. Ég held að við þurfum ekkert að ræða það neitt frekar, ójöfnuðurinn hefur aukist gríðarlega. Og að taka eina mælingu og ætla að setja hana inn í samanburð við mælingar sem voru gerðar með allt öðrum hætti er af og frá að hægt sé gera.

Einnig dreg ég í efa niðurstöður Hagstofunnar, eftir að hafa kynnt mér þessi gögn gaumgæfilega, og spurning hvort ekki hafi í rauninni átt að sleppa einfaldlega öllum fjármagnstekjum vegna þess að gildi sem Hagstofan sýnir er ekki langt frá því sem útreikningar hæstv. forsætisráðherra sýndu þegar öllum fjármagnstekjum var sleppt fyrir árið 2003. Yfir þessa útreikninga þarf að fara og við eigum ekki að þurfa að rífast um einhverjar staðreyndir og tölur heldur hvernig við ætlum að leysa úr þessu máli. Fram kemur að fjármagnstekjur hafa gríðarleg áhrif á ójöfnuðinn í landinu og ef þeim er sleppt breytist kúrfan gríðarlega mikið. Þetta þarf að fara yfir og hvort sanngirni sé í því að rúmur helmingur fjármagnstekna renni til 1% þeirra sem hæstar hafa tekjurnar í landinu, frú forseti.