133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:31]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það hvarflar aldrei að mér að ræða annað en fundarstjórn forseta undir þessum lið (Gripið fram í: Láttu ekki svona.) og ég held að menn ættu almennt ekki að gera það. Hæstv. forseti fór mjög vel yfir hvaða reglur gilda um það. Hv. þingmenn hér í þingsal þekkja auðvitað mjög vel hvaða reglur gilda um það hvernig menn ræða störf þingsins.

Ég er alveg sammála hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um að betur færi á því að menn ræddu hér eitt mál þegar búið er að taka upp þann sið að taka fyrir efnislega umræðu undir liðnum störf þingsins. Það lýsir best samkomulaginu í kaffibandalaginu að ekki skyldi vera hægt að gera það í þetta skipti. (Gripið fram í.) Hvernig átti forseti að stýra því? Þannig háttaði til að hv. þingflokksformaður, Össur Skarphéðinsson, sendi út tilkynningu um að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir tæki þetta mál upp undir liðnum störf þingsins. Þá höfðu menn gert ráð fyrir að það yrði umræðuefnið en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sá ástæðu til að brjóta þá reglu (Gripið fram í: Hann er svo nýr í kaffibandalaginu.) sem venjulega hefur verið um það hvernig menn ræða mál hér. (Gripið fram í.) Bent er á það í þingsal að hann muni vera svo nýr í kaffibandalaginu að hann kunni ekki reglurnar en þá hefðu hv. þingmenn í Frjálslynda flokknum, félagar hans, getað bent honum á hvaða reglur giltu um þetta, hvaða samkomulag er um slíka umræðu. Kaffibandalagið þyrfti að endurskoða samkomulagið innan hópsins og sjá hvort menn geti komist að niðurstöðu um hvernig þeir ætla að ræða málin í þingsal.