133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að þingmönnum ber auðvitað engin skylda til að tilkynna fyrir fram að þeir hyggist nýta sér rétt sinn til að taka til máls undir þessum dagskrárlið, um störf þingsins. Það skapar mönnum engan forgang þó að þeir hafi sent inn slíka tilkynningu. Mér fannst hins vegar eðlilegt að láta vita af ætlan minni. Ég óskaði eftir utandagskrárumræðu um málið í dag og sagði að ef ekki yrði hægt að verða við því mundi ég taka málið upp undir þessum dagskrárlið. Það lá þá alveg ljóst fyrir.

Það má segja að þingflokksformaður Samfylkingarinnar fari sömu leið. Eins og hér hefur verið upplýst sendi hann tilkynningu um að þingmaður hans einn mundi taka upp annað mál undir liðnum um störf þingsins. Enginn gerir athugasemd við það, virðulegi forseti. Menn bara taka þau mál upp sem þeim finnst brýn og ræða þau. Mér fannst brýnt að taka upp þetta mál, atvinnumál á Ísafirði, öðrum fannst það ekki brýnt og ræddu annað mál. Svona bara liggur málið og ekkert við því að gera.

Ég vil hins vegar segja, virðulegi forseti, að ég held að það þurfi að verða veruleg breyting á framkvæmd utandagskrárumræðunnar í þinginu. Hún hefur breyst mikið á síðustu árum, og til hins verra að mínu mati, frá því að vera utandagskrárumræða yfir í það að vera skipulögð leynileg dagskrárumræða þar sem menn leggja inn beiðnir um utandagskrárumræðu út af einhverju tilefni sem mönnum finnst brýnt og þurfi að ræða en svo liggur beiðnin inni dögum og jafnvel vikum saman og er bara látin liggja til að koma í veg fyrir að aðrir geti tekið sama mál upp í þingsalnum. Þetta er ekki eðlilegur gangur, virðulegi forseti. Ef mál er það brýnt að menn telji nauðsynlegt að ræða það utan dagskrár þarf að ræða það fljótt. Það segir sig sjálft því að ef það er ekki brýnt fer málið bara inn á dagskrá, þá leggja menn inn fyrirspurn eða þingmál sem fer á dagskrá. Ef menn telja málið það brýnt að það þurfi að taka það fyrir skjótt gerist það með utandagskrárumræðu. Áður fyrr var það þannig að utandagskrárumræða fór fram innan tveggja tíma frá því að beðið var um hana, a.m.k. samdægurs. Núna líða dagar og vikur og svo stundum dettur beiðnin út án þess að hafa verið nýtt. Þetta gengur ekki.

Ef atburðir gerast sem þingmennirnir meta brýna og vilja ræða á að gera það strax, sama daginn, í síðasta lagi daginn eftir. Ef ekki er hægt að verða við því er bara utandagskrárumræðuformið ónýtt. Það er ekkert gagn að því að vera með þetta ákvæði í þingsköpunum ef það er ekki hægt að koma umræðunni að sem menn vilja að komist skjótt að.