133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég rakti mjög ítarlega í ræðu minni að um leið og maður fer að eignfæra auðlind sem er í rauninni ekki bara til nýtingar í dag heldur til framtíðar, þá er fjandinn laus. Þess vegna stendur þetta stríð um að hve miklu leyti þessi auðlind er eignfærð í séreignarrétt. Það hefur verið krafa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, svipað og gerðist með vatnið. Ég get fullvissað þingmanninn um að komist þetta vatnalagafrumvarp til framkvæmda þar sem á að einkavæða vatnið, munum við fá lífskerfi eins og verið er að byggja upp í sjávarútveginum með kvóta og bótum, bót ofan á bót. Um leið og þetta er komið á er maður bara kominn út í allt annað umhverfi.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að eins og nú er verið að stýra þessum atvinnuvegi er verið að stýra honum gersamlega fram hjá hagsmunum einstaklinga í einstaklingsrekstri eða fjölskyldum sem hafa verið með sjávarútveg í smærri stíl. Það hefur markvisst verið unnið að því að drepa einstaklingsreksturinn, einyrkjareksturinn í sjávarútvegi, sem er stórhættulegt og kolrangt.

Sú stefna sem hér hefur verið rekin hefur miðað að því að færa eignar- og yfirráð yfir auðlindinni yfir á örfárra manna hendur. Þegar maður er kominn út í þetta kapítalíska umhverfi (Forseti hringir.) er fjandinn laus varðandi þessa auðlind. Ég kem, herra forseti, að seinni hluta spurningar hv. þingmanns í næsta andsvari.