133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:45]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get nú ekki sagt að það kerfi sem við búum við sé kapítalískt. Það er miklu frekar sérhagsmunagæsla þar sem markaðslögmálin fá ekki að ráða. Þetta er sérhagsmunagæsla sem maður er svo hissa á og verða enn og aftur vitni að því að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki einmitt leyfa markaðslögmálunum að ráða verðmyndun heldur vera með einhverja verðlagsstofu sem tekur mið af hinu og þessu. Þetta er mjög gamaldags í rauninni. Þegar sagnfræðingar líta yfir farinn veg einhvern tímann í framtíðinni og verða að lesa í gegnum þessa umræðu og sjá að fulltrúi vinstri manna hefur gagnrýnt hægri menn fyrir að láta ekki markaðslögmálin ná yfir undirstöðuatvinnugrein landsmanna, mun þá auðvitað reka í rogastans að sjá hvers konar vitleysa þetta er.

En hér er hæstv. sjávarútvegsráðherra að boða að festa þetta kerfi í sessi og vera með einhverja bót sem er í rauninni engin sérstök bót. Færð hafa verið rök fyrir því að slík bót hafi verið til staðar í lögum sem eru í gildi og þess vegna sé þetta frumvarp svona rétt til að sýnast, eins og svo margt sem hæstv. ráðherra er að gera.

En fróðlegt væri að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann geti einfaldlega stutt frjálsar krókaveiðar vegna þess að sú kvótasetning sem hefur verið hefur ekki skilað neinu. Nú er enn og aftur í kvöld verið að boða niðurskurð á aflaheimildum og maður furðar sig á því hvað þetta á að ganga langt.