133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:46]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað hið besta mál að hingað komi menn í ræðustólinn, bjartir og fallegir í framan, og segi að þetta sé hið besta mál, og allir eru því sammála, og segja síðan, frú forseti: Þetta er hafið yfir flokkapólitík. En sýnir reynslan það? Er þetta ekki í þriðja skiptið sem hv. þingmaður flytur þetta mál? Hafa ekki allir talað með þessum hætti, líka þeir þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa talað hér eins og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, og eins og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir mun tala hér á eftir?

Þetta er ekki hafið yfir flokkapólitík. Það eru tveir flokkar á Alþingi sem ráða úrslitum málsins. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur: Fyrst málið er svona gott — um það erum við sammála — mun hún þá ekki gera allt sem hún getur og beita afli sínu innan Framsóknarflokksins til að sjá um að þetta mál verði samþykkt hér í vor? Þá er hægt að segja að þetta sé hafið yfir flokkapólitík, ekki fyrr.