133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

kjaradeila grunnskólakennara.

[12:01]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hef óskað eftir því að kveðja mér hljóðs undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins til að taka hér upp við forsætisráðherra þann hnút sem er í kjaraviðræðum sveitarfélaga og kennara. Eins og við munum voru harðar kjaradeilur á árinu 2004 sem enduðu með lagasetningu á þinginu í nóvember 2004, lögum sem sett voru á verkfall kennara. Eins og við vitum er mjög varhugavert að grípa þannig inn í kjaradeilur vegna þess að út úr því koma þvingaðir samningar og það er ljóst að kennarar eru mjög ósáttir við niðurstöðu þeirra. Við samfylkingarþingmenn vöruðum við þessari lagasetningu og töldum að verið væri að skjóta vandanum á frest, þetta mundi leiða til þess að mórallinn í kennarastéttinni hryndi, við værum með kennarastétt sem hefði verið gerð afturreka, væri óánægð með kjör sín og að út úr þessu kæmu bara verri skólar.

Við eigum gríðarlega mikið undir því að skólastarf í landinu sé gott og að skólarnir séu reknir af metnaðarfullu fólki sem finnst það metið að verðleikum. Nú er deilt um grein 16.1 í kjarasamningunum um það hvernig eigi að meta almenna verðlags- og kjaraþróun. Það er ljóst að á þessu tímabili, 2004–2006, hefur verðbólga líklega verið um 9% og í þeim efnum er auðvitað við ríkisstjórnina að sakast. Vandi sveitarfélaganna er mikill, mörg þeirra hanga á horriminni og þess vegna hafa þau takmörkuð úrræði og kannski ekki mikið að bjóða.

Nú hefur bæjarstjórinn í Hafnarfirði lagt það til að einhvers konar kjaradómur verði settur í málinu, en til þess að einhver niðurstaða náist í þessu er mikilvægt að ríkisstjórnin axli sína ábyrgð. Hún ber ábyrgð á þeirri verðbólguþróun sem hefur verið hér, hún ber ábyrgð á því að hafa gripið inn í kjarasamningana 2004 og hún ber auðvitað ábyrgð á þeirri tekjuskiptingu sem hér er á milli ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggist koma til móts við sveitarfélögin þannig að þau geti leyst úr þessum hnút sem er mjög brýnt mál fyrir skólastarf í landinu.