133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu.

548. mál
[12:23]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Á undanförnum missirum hefur farið fram vaxandi umræða um upptöku evrunnar sem myntar okkar Íslendinga. Það er full ástæða til, og eðlileg umræða enda hverjum manni augljóst að íslenska krónan á ekki framtíðina fyrir sér þó að hún kunni að duga okkur enn um sinn.

Alþjóðavæðing og vaxandi frjáls milliríkjaviðskipti leiða einfaldlega til þess að myntsvæðum fækkar og þau stækka. Ólíklegt verður að telja að í fyrirsjáanlegri framtíð muni heimurinn skiptast í fjögur myntsvæði, þ.e. japanska jenið, bandaríkjadal, evruna og íslensku krónuna.

Það er fyrst og fremst spurning um hvenær og hvernig þessar breytingar verða, og nauðsynlegt fyrir okkur að ræða það og kannski einmitt ekki síst þegar hér hefur verið hagvöxtur samfelldur um nokkurn tíma og staða okkar eigin gjaldmiðils nokkuð sterk í sögulegu samhengi. Þessar ákvarðanir þurfum við að taka í styrkleika og að eigin frumkvæði en ekki að hrekjast undan í efnahagslegum erfiðleikum sem við kunnum að eiga við að glíma í framtíðinni.

Breytingar á mynt þeirri sem við notum hér geta auðvitað fært með sér ýmsa jákvæða hluti, bæði fyrir neytendur og fyrirtæki. Þannig er íslenska krónan í sjálfu sér viðskiptahindrun. Rannsóknir sýna að með því að leggja af slíka viðskiptahindrun aukast milliríkjaviðskipti, aukast útflutningsviðskipti þeirra þjóða sem það gera með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir atvinnulífið í viðkomandi löndum.

Sömuleiðis geta íslenskir neytendur bundið ákveðnar vonir við að meiri líkur séu á því en minni að dragi úr því vaxtastigi sem hér hefur verið og þeirri ógnarverðbólgu sem neytendur hér hafa á stundum þurft að þola, m.a. þessi missirin. Hér má búast við stöðugra efnahagsumhverfi en verið hefur því að hagstjórn okkar hefur einkennst af mjög miklum sveiflum og krónan kannski verið óhjákvæmilegur fylgifiskur þess, þ.e. eina leiðin til að eiga við þær sveiflur hefur verið þessi minnsta flotmynt í heimi, þær eru þannig óaðskiljanlegar.

Til þess að við getum yfir höfuð rætt um það hvort hér eigi að taka upp evru sem mynt þjóðarinnar er auðvitað nauðsynlegt að við uppfyllum þau lágmarksskilyrði sem eru fyrir því að vera hluti af hinu evrópska myntsamfélagi sem kallað er EMU, Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Ég spyr þess vegna forsætisráðherra hvaða skilyrði það eru sem við ekki uppfyllum og hvort það (Forseti hringir.) sé von til þess að við getum uppfyllt þau. Þau hljóta að snúa að vaxtastiginu, að verðbólgunni og síðast en ekki síst að stöðugleika gjaldmiðilsins.