133. löggjafarþing — 81. fundur,  28. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[15:54]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil að það komi alveg skýrt fram, líkt og í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að við í Samfylkingunni munum styðja við málið til að greiða fyrir því að þær lagabreytingar sem eru nauðsynlegar til að lækka matarverð á morgun komist í gegnum þetta löggjafarþing.

Hins vegar eru vinnubrögðin hæstv. landbúnaðarráðherra og ríkisstjórninni allri til skammar, að leggja málið svo seint fram að það er ekki fyrr en nú, korteri fyrir gildistökudag, að málið er að fara í gegnum 2. umr. Það er hins vegar í stíl við málið allt frá upphafi. Þeir lagagerningar sem hér er verið að samþykkja og hafa verið fyrir þinginu í vetur til að lækka matarverð komu til af hálfu ríkisstjórnarinnar vegna þess að Samfylkingin lagði fram ítarlegar tillögur um hvernig ætti að bregðast við háu matarverði og grípa til aðgerða til þess að lækka það. Það var þá sem hæstv. ríkisstjórn, korteri fyrir þingbyrjun, lagði fram tillögur sínar.

Eins og menn muna var ágreiningur innan Framsóknarflokksins um það með hvaða hætti ætti að gera það. Það var ágreiningur millum hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra annars vegar og ýmissa annarra sem koma nálægt landbúnaðarmálum í Framsóknarflokknum um það hversu langt ætti að ganga, t.d. varðandi lækkun virðisaukaskatts. Það var alveg ljóst að það var ágreiningur á milli hæstv. landbúnaðarráðherra og margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um til hvaða aðgerða ætti að grípa varðandi tollalækkanirnar.

Það er sjálfsagt að rifja upp að það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem tóku undir málflutning Samfylkingarinnar varðandi almennar tollalækkanir á innfluttum landbúnaðarvarningi. Ég spyr, herra forseti: Hvar er hv. þingmaður og talsmaður þéttbýlisbúa núna, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson? Hvar er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson í umræðunni? (Gripið fram í.) Það þýðir ekkert, hv. þingmaður sem nú kallar fram í, að fara í fjölmiðla, geipa þar og taka undir tillögur með tollalækkunum en láta svo ekki sjá sig þegar menn ræða þetta á hinu háa Alþingi.

Um málflutning hæstv. landbúnaðarráðherra verð ég að segja að þótt hann hafi verið ágætur varðgæslumaður fyrir ákveðna hluta landbúnaðarins þá einkennir það málflutning hans að hann hefur undarlega minnimáttarkennd gagnvart íslenskum landbúnaði sem ekki er að finna hjá bændastéttinni. Hæstv. ráðherra virðist telja að íslenskur landbúnaður geti aldrei staðið í samkeppni við innfluttan varning á sviði landbúnaðarvöru í krafti þeirra gæða sem hæstv. ráðherra hefur þó manna best dregið upp fyrir þjóðinni og umheiminum að einkenni íslenskan landbúnað. Við höfum hins vegar fyrir okkur dæmin, herra forseti.

Þegar hæstv. landbúnaðarráðherra var píndur til þess, nánast dreginn til þess með töngum, að aflétta tollverndinni af grænmeti á sínum tíma töldu margir, og menn komu á pallana, ýmsir af stuðningsmönnum hæstv. ráðherra, og sögðu að þetta mundi leiða til þess að innlend grænmetisframleiðsla mundi að fótum fram falla. Hvað hefur gerst síðan? Það hefur orðið margföld söluaukning, veruleg lækkun á verði til neytenda. Allir hafa haft hag af þessu.

Það sem hæstv. landbúnaðarráðherra streittist við að segja hér árum saman reyndist vera hjóm og vitleysa. Af hverju lærum við ekki af reynslunni? Af hverju geta menn ekki sagt sem svo: Í krafti þessarar reynslu er alveg ljóst að landbúnaðurinn getur með hæfilegri aðlögun tekið á sig vaxandi samkeppni. Þetta var einmitt það sem hæstv. landbúnaðarráðherra var sjálfur byrjaður að segja í síðustu lotu, svokallaðri Doha-lotu, innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá sögðu ráðuneytisstjóri hans og hæstv. ráðherra í fjölmiðlum að nú væri ljóst að fram undan væru samningar á því sviði sem Íslendingar yrðu að gangast undir, m.a. til að njóta þess á sviði mikilvægari atvinnugreina eins og sjávarútvegs. Þeir áttu að leiða, til hvers, herra forseti? Þeir áttu að leiða til helmingslækkunar á tollum á innflutningsvernd. Þetta var það sem sérfræðingar landbúnaðarráðuneytisins sögðu á sínum tíma.

Það er nákvæmlega það sem Samfylkingin hefur verið að leggja til, að helmingur tollverndarinnar verði afnuminn til þess að lækka verð á vörum til neytenda en líka að herða innlendan landbúnað í samkeppninni. Ég ber engan kvíðboga fyrir því ef menn mundu samhliða stíga skref til frelsisáttar í landbúnaði og leyfa mönnum meira frelsi við framleiðslu og sölu. Þá mundi þetta ganga saman hönd í hönd og leiða til þess að landbúnaðurinn mundi smám saman styrkjast og ganga vel, a.m.k. í ákveðnum greinum í samkeppni við erlendar vörur. Hann mundi keppa, eins og íslensku grænmetisframleiðendurnir, í krafti gæðanna. Um leið hefði verðið til neytenda lækkað. Þetta skiptir máli. Hæstv. landbúnaðarráðherra þverskallast við að hlíta dómi reynslunnar. Hann rembist enn eins og rjúpan við staurinn til að toga fram þau rök sem reynslan hefur sýnt að eru röng hjá honum. Þess vegna leyfi ég mér að halda því fram að versti gallinn á annars ágætri frammistöðu hæstv. landbúnaðarráðherra sé að hann hefur minnimáttarkennd fyrir hönd íslenskrar landbúnaðarstéttar, sem hún sjálf hefur ekki.

Að lokum langar mig að varpa einni spurningu til hæstv. ráðherra. Hann tók þátt í því með fjármálaráðherra og stjórnarliðinu á sínum tíma að leggja fram margvíslegar tillögur til lækkunar á matarverði sem voru svar við tillögum Samfylkingarinnar. Á þeim tíma var því haldið fram fullum fetum, m.a. af þingmönnum Framsóknarflokksins, að þetta mundi leiða til 16% lækkunar á útgjöldum meðalheimilis til matvælakaupa. Nú er að koma í ljós, herra forseti, að lækkunin verður miklu minni. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann skammist sín ekki fyrir að koma þannig fram með þeim afleiðingum sem blasa við á morgun en þá er lækkunin miklu minni. Ég gæti út af fyrir sig svarað spurningunni fyrir hönd hæstv. ráðherra því ég veit að í hjarta sínu er hann ærlegur og hann hefur samvisku. Það hefur margsinnis sýnt sig og auðvitað skammast hann sín fyrir þetta. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Veit hann hverjar afleiðingarnar verða nákvæmlega til hagsbóta fyrir neytendur á Íslandi með þeim breytingum sem fá lagagildi á morgun?

Ég vil ekki draga það undan að breytingarnar skipta töluverðu máli en því miður er búið að leggja fram reikninga sem sýna að í stað þess að kostnaðurinn eigi að lækka um 16% er líklegt að hann lækki ekki nema um 10%, hugsanlega bara um 8%. Einn hagfræðingur, sem starfar fyrir almannasamtök, heldur því fram að útgjöldin muni einungis lækka um 6%. Þetta eru auðvitað svik miðað við þau loforð sem ríkisstjórnin gaf. Hæstv. landbúnaðarráðherra var hluti af því liði sem stóð frammi fyrir þjóðinni í fjölmiðlum og sagði að þessar aðgerðir mundu leiða til þess að það yrði lítill munur á meðalverði matvæla á Norðurlöndunum og á Íslandi. Reynslan er að sýna að þetta er allt saman tóm vitleysa. Auðvitað hefði átt að fara leið Samfylkingarinnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég veit að hann er glöggur, kjarnyrtur og tekur ekki mikinn tíma til þess að svara því: Hversu mikið munu útgjöld heimilanna nákvæmlega lækka með þeim aðgerðum sem taka gildi á morgun og við í Samfylkingunni ætlum að hjálpa hæstv. ráðherra að ná í gegn?