133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:06]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en það sem mér varð starsýnt á í frumvarpinu er í 3. mgr. 1. gr. en hún hefst á orðunum, með leyfi forseta:

„Ráðherra er rétt að ráðast í framkvæmdir …“ — Sem verður ekki skilið öðruvísi að mínu viti en svo að ráðherrann megi ráðast í framkvæmdir á annarra manna landi og beita eignarnámsheimld til að koma þeim framkvæmdum á. Ég spurði hvort þetta væri réttur skilningur, ef landeigandinn vildi ekki vinna gegn landbroti, t.d. vegna þess að hann vildi leyfa náttúrunni að breyta árfarveginum eins og hún gerir af sjálfu sér, þá gæti ráðherrann gripið inn í þau áform landeigandans og ómerkt þau í raun og fyrirskipað varnir gegn landbroti.

Þetta er ekki alveg sjálfgefið, maður getur auðvitað séð fyrir sér tilvik þar sem nauðsynlegt væri að gera þetta, en það er samt ekki alveg sjálfgefið að ráðherrann hafi svona opna heimild til að grípa inn í. Þess vegna vakti ég athygli á þessu og spurðist fyrir um þetta ákvæði.

Um síðara málið, sem er kannski það sem stendur upp úr í þessari umræðu, sem er aðalmálið, það er auðvitað ekkert hægt að segja eins og hæstv. landbúnaðarráðherra „það mun koma í ljós“. Það hefur komið í ljós. Ákvæði stjórnarsáttmálans er inni og það er ekki í tillögum stjórnarskrárnefndar. Hann og aðrir í hans flokki hafa sætt sig við að þetta nái ekki fram að ganga. Þannig stendur málið. Hæstv. ráðherra er búinn að kyngja þessu hvort sem hann var nauðugur eða viljugur. (ESB: Hann lofaði áðan að það yrði efnt.) Já, já, þá þarf hann að svara því hvernig hann ætlar að efna það, virðulegi forseti. Með hverjum ætlar hann að efna þetta ákvæði?