133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Geðshræring hv. þingmanns leynir sér ekki. Það er alveg greinilegt að honum hefur algerlega láðst að skoða þessa hlið málsins. Ég gerði það í sumar því ég kynnti mér þetta mál. Þetta er einfaldlega fréttatilkynning frá Hvíta húsinu, hefur ekkert lögformlegt gildi og það er fullnægjandi að svara henni með pólitískri yfirlýsingu stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka eins og ég sagði áðan.

Að öðru leyti vil ég vitna til þess sem hæstv. forsætisráðherra sagði í umræðum fyrr í vetur að Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í því að vera á þessum lista en þeir andmæltu því hins vegar ekki á þeim tíma.