133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:00]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Atburðarásin var einfaldlega svona: Bandaríkjamenn gengu fast eftir því við stuðningsríki sín að þau lýstu yfir stuðningi. Þannig var þessum nöfnum safnað saman. Síðan var þeim komið á þennan lista sem var birtur á heimasíðu Hvíta hússins og öllum sjónvarpsstöðvum heimsins. Auðvitað var nafn Íslands þarna vegna þess að utanríkisráðherrann lagðist ekki gegn því að Ísland væri á listanum. Að sjálfsögðu fólst samþykkið í því.

Það urðu svo hörð viðbrögð hér heima þegar þetta kom upp að það skapaði ólgu og sennilega hafa verið einhverjir þingmenn í liði stjórnarliðsins sem vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið vegna þess að við sem fylgdumst með heimasíðu Hvíta hússins á þessum tíma munum alveg þegar nafn Íslands datt allt í einu út um 2–3 klukkustunda skeið og síðan var það einfaldlega staðfest aftur af þessum tveimur mönnum. Allar götur síðan þá hefur nafn Íslands verið á þessum hræðilega lista. (Forseti hringir.) Þetta er einhver aumlegasta málsvörn sem ég hef heyrt fyrir (Forseti hringir.) mistök fortíðarinnar.