133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:40]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum tillögu stjórnarandstöðunnar til þingsályktunar um yfirlýsingu gegn stuðningi við innrásina í Írak en þar segir, eins og áður hefur komið fram:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að taka Ísland með formlegum hætti út af lista þeirra 30 þjóða, sem studdu innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak vorið 2003 og lýsir því yfir að stuðningurinn við innrásina hafi verið misráðinn.“

Það hefur margoft komið fram, og þá sérstaklega kannski hjá Framsóknarflokknum, að þessi yfirlýsing hafi verið mistök, þeir hafa viðurkennt það og það má heyra að ákveðin sektarkennd hefur gróið um sig hjá framsóknarmönnum.

Eins og flestir aðrir undra ég mig á því af hverju Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í umræðunni. Þar að auki veltir maður því enn og aftur fyrir sér hvers vegna í ósköpunum það var samþykkt á sínum tíma að vera á lista viljugra þjóða til að ráðast inn í Írak. Því oftar sem menn spyrja þeirrar spurningar og eftir því sem tíminn líður því minna verður um svör. Það er ljóst að ástæðurnar sem voru gefnar upp á sínum tíma eru upplognar, það eru engin kjarnavopn í Írak og hafa ekki enn fundist nú þremur árum seinna. Ekki hafa heldur fundist tengsl á milli Saddams Husseins og al Kaída, sem var ein af ástæðunum, og margir telja að innrásin hafi frekar aukið á hryðjuverkaógn en hitt.

Eins og komið hefur fram naut þessi innrás alls ekki stuðnings öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og er þar af leiðandi skýrt brot á lögum. Það sem skiptir okkur Íslendinga jafnvel enn meira máli er sú ótrúlega staðreynd að tveir einstaklingar á landinu skuli geta tekið jafnmikla ákvörðun og þá að vera á lista yfir viljugar þjóðir. Málið er ekki lagt fyrir utanríkismálanefnd, það er ekki lagt fyrir ríkisstjórn, það er ekki lagt fyrir þingflokka o.s.frv. Ákvörðunin er því gjörsamlega ólögleg.

Eins og flestir vita tilkynnti formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi fyrir ekki löngu að þessi ákvörðun hefði verið mistök (Gripið fram í: Á flokksþingi.) — á flokksþingi Framsóknar, það er ágætt að vita að menn eru að hlusta. Jafnframt veittu menn því athygli að þar brutust út mikil fagnaðarlæti. Hér hefur verið talað um, m.a. af hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur, að menn séu tilbúnir að axla ábyrgð. Ég velti því fyrir mér, frú forseti: Hvernig ætla framsóknarmenn að axla ábyrgð? Er ekki hluti af því að styðja þessa þingsályktunartillögu?

Ef við horfum til framtíðar — því miður eru hvorki hæstv. forsætisráðherra né iðnaðarráðherra viðstaddir en hér eru tveir ráðherrar Framsóknarflokksins — verð ég að viðurkenna að ég hef miklar áhyggjur af því að sú ríkisstjórn sem nú situr muni bregðast hratt og vel við ef til þess kæmi að Bandaríkjamenn og Bretar óskuðu eftir því að Íslendingar væru á lista yfir viljugar þjóðir til þess að ráðast inn í Íran.

Það er komið að lokum umræðunnar í dag en ég held að það væri mjög gott ef t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, kæmi og lýsti því skýrt yfir í andsvari að hann tæki ekki þátt í því fyrir hönd Framsóknarflokksins að styðja viljayfirlýsingu til innrásar í Íran. Það hefur ekki komið skýrt fram.

Eftir þau mistök sem voru gerð, og hafa verið viðurkennd, og í ljósi þess hvernig ákvörðunin var tekin, af einungis tveimur mönnum í stjórnarflokkunum, hljótum við öll, þjóðin öll, að hafa áhyggjur af því að slíkt geti gerst aftur. Við hljótum að hafa áhyggjur af því að formenn flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, lýsi yfir stuðningi ef Bandaríkjamenn taka þá ákvörðun að ráðast inn í Íran. Það gæti gerst á næstu vikum, næstu mánuðum eða næstu missirum.

Ég held, frú forseti, að það væri mjög gott að fá að heyra það frá hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformanni Framsóknarflokksins, hvort framsóknarmenn eru tilbúnir að taka þátt í að samþykkja þingsályktunina, sem væri þá hluti af því að axla ábyrgð eins og þeir hafa lofað. Það væri líka gott að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann er tilbúinn að lýsa því yfir fyrir hönd síns flokks að Framsóknarflokkurinn muni ekki skrifa undir stuðningsyfirlýsingu við stríð Bandaríkjamanna gegn Íran.