133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[18:01]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra upplýsti ekki hvaða forsendur það voru sem stuðst var við og reyndust síðar rangar. Hann vék ekki einu orði að þeim í þessari ræðu eða neinum öðrum ræðum sem hann hefur flutt um þetta mál af þeirri einföldu ástæðu að hann hefur ekkert svar við því. Þetta er frasi sem hann hefur komið sér upp og fleiri til þess að geta bakkað út úr málinu án þess að viðurkenna að þeir gerðu rangt.

Það er kannski aðalvandinn í málinu að menn viðurkenna ekki að þeir gerðu rangt, að menn viðurkenna ekki pólitíska ábyrgð. Það er áhyggjuefni þegar menn eru ekki nógu einarðir til að gangast við því og segja: Við tókum rétta ákvörðun, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði, og er greinilega ósammála formanni sínum, því að hæstv. utanríkisráðherra sagði nýlega: „Við tókum rétta ákvörðun en á röngum forsendum.“ Það er ekki viðurkenning á því að menn hafi gert neitt rangt, menn eru að kasta ábyrgðinni á einhverjar ótilgreindar forsendur.

Hæstv. landbúnaðarráðherra verður að gangast í gegnum þetta mál og viðurkenna að ákvörðunin var alla tíð röng. Hann vissi það og aðrir vissu það og þeir sem gagnrýndu þessa ákvörðun fengu dálítið að kenna á því.

Hann minntist á stöðu mína og ummæli fyrir síðustu kosningar. Það er rétt, ég gagnrýndi þessa ákvörðun opinberlega þá og var formaður þingflokks framsóknarmanna. Ég var það ekki eftir kosningar, eftir að ég hafði flutt fram þessa gagnrýni. (Gripið fram í.)

Ég stóð ekki að fjölmiðlamálinu, virðulegi forseti, aðför fáeinna manna að fyrirtæki úti í bæ þar sem menn ætluðu að beita löggjafarvaldinu í því skyni. (Gripið fram í: Það gerði Guðni.) Það gerði hæstv. landbúnaðarráðherra. Hann stóð að fjölmiðlamálinu og var alltaf jafnkátur við útgáfu 1, 2, 3, 4 og 5 og gafst svo upp að lokum. Og hvar var staða mín eftir það, virðulegi forseti?