133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[23:45]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum, annars vegar frumvarpi til laga um mannvirki, sem er 662. mál á þskj. 1004, og hins vegar frumvarpi til skipulagslaga, sem er 661. mál á þskj. 1003.

Vorið 2002 ákvað umhverfisráðuneytið að ráðast í heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og í því skyni voru skipaðar tvær nefndir. Þær nefndir skiluðu vorið 2006 tillögum sínum í formi tveggja frumvarpa, annars vegar frumvarpi til skipulagslaga og hins vegar frumvarpi til laga um mannvirki.

Í nefnd um endurskoðun byggingarhlutans áttu sæti fulltrúar umhverfisráðuneytis, forsætisráðuneytis, Samtaka iðnaðarins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Brunamálastofnunar.

Nefndin hafði samráð við fjölmarga aðila við gerð frumvarpsins, þar með talinn sérstakan ráðgjafarhóp sem var skipaður helstu hagsmunaaðilum á sviði mannvirkjamála. Sumarið 2006 fór fram af hálfu umhverfisráðuneytisins víðtæk kynning á framangreindum frumvörpum og voru þau send 159 aðilum til umsagnar, þar á meðal öllum sveitarfélögum landsins. Jafnframt kynnti ráðuneytið frumvörpin í fjölmiðlum og á heimasíðu sinni og var almenningi gefinn kostur á að gera athugasemdir við efni þeirra. Ráðuneytið fór vandlega yfir þær tæplega sjötíu skriflegu athugasemdir sem því bárust og voru gerðar breytingar á frumvörpunum m.a. vegna þeirra.

Í frumvarpi til nýrra laga um mannvirki er lögð til nýskipan stjórnsýslu mannvirkjamála en þó byggt á þeim grunni sem fyrir er. Lögð hefur verið áhersla á að líta heildstætt á alla löggjöf þar sem fjallað er um öryggi og heilnæmi mannvirkja með það að markmiði að gera stjórnsýslu mannvirkjamála sem skilvirkasta, auka faglega yfirsýn í málaflokknum og tryggja samræmt byggingareftirlit um land allt.

Lagt er til að sett verði á fót ný stofnun, Byggingarstofnun, sem hafi yfir að ráða faglegri hæfni til að hafa með höndum yfirstjórn byggingareftirlits í landinu með það að meginmarkmiði að auka öryggi mannvirkja og gæði. Gert er ráð fyrir að Byggingarstofnun taki til starfa 1. júní 2007 og undirbúi gildistöku laganna 1. janúar 2009.

Á sama tíma, það er 1. janúar 2009, verði Brunamálastofnun lögð niður og verkefni hennar færð undir Byggingarstofnun og ábyrgð á framkvæmdum byggingarmála færð frá Skipulagsstofnun til Byggingarstofnunar.

Í frumvarpinu er lagt til að ábyrgð á þeim hluta laganna, nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga sem varðar rafmagnsöryggi í mannvirkjum færist frá Neytendastofu til Byggingarstofnunar en Neytendastofa annast það þó áfram fyrir hönd Byggingarstofnunar að minnsta kosti til 1. janúar 2012 og enn fremur er gert ráð fyrir að eftirlit með lyftum færist frá Vinnueftirliti til Byggingarstofnunar og aðgengismál verði í höndum Byggingarstofnunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að meginþungi byggingareftirlits í landinu verði áfram í höndum sveitarfélaganna en örfá mannvirki verða þó háð byggingarleyfi og byggingareftirliti Byggingarstofnunar, svo sem virkjanir, mannvirki á hafinu og mannvirki á öryggis- og varnarsvæðum. Gert er ráð fyrir þeirri breytingu að byggingarnefndir verði lagðar niður og sveitarstjórnir komi ekki með beinum hætti að stjórnsýslu byggingarmála. Hlutverk þeirra verður að ráða byggingarfulltrúa sem síðan mun sinna útgáfu byggingarleyfa og framkvæmd byggingareftirlits.

Í eðli sínu eru byggingarmál tæknileg mál og þess vegna er eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði. Ákvarðanir um landnotkun á fyrirkomulagi byggðar verða hins vegar áfram í höndum sveitarstjórna og skipulagsnefnda á grundvelli skipulagslaga.

Þar sem lagt er til að skipulags- og byggingarlögum verði skipt í tvenn lög er nauðsynlegt að settar verði skýrar línur um mörk þeirra laga. Gert er ráð fyrir að í lögum um mannvirki verði ákvæði sem varða tæknilega gerð mannvirkja, sérstaklega varðandi öryggi, heilnæmi og aðgengi. Ákvæði er varða útlit mannvirkja og staðsetningu tilheyra hins vegar skipulagslögum.

Gert er ráð fyrir að allt byggingareftirlit verði framkvæmt af faggiltum aðila í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Byggingarstofnun býr til. Þetta þýðir að annaðhvort er byggingareftirlit, og þá aðallega yfirferð hönnunargagna og framkvæmd úttekta, framkvæmt á faggiltum skoðunarstofum eða af byggingarfulltrúum sem þá þurfa að hafa fengið faggildingu til að annast slíkt eftirlit. Sama gildir um það beina eftirlit sem Byggingarstofnun mun hafa með höndum. Henni verður annaðhvort heimilt að fela það faggiltum skoðunarstofum eða annast það sjálf og þarf þá að afla sér faggildingar. Í frumvarpinu eru tiltekin þau hæfnisskilyrði sem aðilar þurfa að uppfylla til að geta öðlast faggildingu og er gert ráð fyrir að þau séu misströng eftir umfangi mannvirkjagerðarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að fleiri mannvirki en áður verði háð byggingarleyfi. Hér er einkum um að ræða virkjanir, fráveitumannvirki og dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, auk mannvirkja á hafi utan sveitarfélagamarka. Í flestum tilfellum verða þessi mannvirki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt gildandi lögum en verða samkvæmt frumvarpinu háð byggingarleyfi í staðinn. Áfram er gert ráð fyrir að tiltekin mannvirki falli utan gildissviðs laganna, svo sem hafnir, varnargarðar og samgöngumannvirki. Slík mannvirki og eftirlit með þeim falla undir aðra löggjöf, svo sem vegalög og siglingalög og því eru þau undanþegin ákvæðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er lögð á það áhersla að skýra hlutverk og ábyrgð eiganda mannvirkis, hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara betur en gert er í gildandi lögum og tekið fram að hin endanlega ábyrgð sé eigandans en hann ráði til sín fagaðila sem sjái um afmarkaða þætti mannvirkjagerðarinnar og beri ábyrgð gagnvart eiganda. Þeir sjá um innra eftirlit eigandans og beiti gæðastjórnunarkerfum við undirbúning og stjórn framkvæmda.

Í frumvarpinu er leitast við að tryggja öguð vinnubrögð þeirra sem að mannvirkjagerðinni koma með því að gera kröfu um að þeir hafi gæðastjórnunarkerfi varðandi þá þætti rekstrar þeirra sem snýr að lögum og reglum um mannvirkjagerð. Á þetta bæði við um hönnuði, byggingarstjóra og iðnmeistara. Vonast er til að þau ákvæði leiði til bættra vinnubragða við mannvirkjagerð og þar með til hagsbóta fyrir neytendur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Byggingarstofnun rannsaki sérstaklega tjón á mannvirkjum sem valda manntjóni eða alvarlegri hættu, svo sem af völdum veðurs, jarðskjálfta, flóða eða annarrar náttúruvár eða ef mannvirki t.d. hrynja eða skemmast illa af óþekktum ástæðum. Hugsunin að baki því ákvæði frumvarpsins er að finna orsakir slíkra tjóna og læra af þeim mistökum sem kunna að hafa átt sér stað við hönnun eða gerð mannvirkis. Einnig geta slíkar rannsóknir leitt í ljós að breyta þurfi reglum um hönnun og byggingu mannvirkja. Nokkuð hefur skort á að slíkar rannsóknir fari fram með skipulögðum og markvissum hætti. Þessu til viðbótar skal Byggingarstofnun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins árlega gefa út skýrslu um stöðu og þróun mannvirkjagerðar í landinu í því skyni að auka yfirsýn yfir þennan víðfeðma og flókna málaflokk.

Þá er lagt til að gjald með nýju heiti, byggingaröryggisgjald, muni fjármagna starfsemi Byggingarstofnunar. Ekki er um nýtt gjald að ræða heldur hefur ákvæði um svokallað brunavarnagjald, sem innheimt hefur verið á grundvelli laga um brunavarnir, verið fært inn í frumvarp til laga um mannvirki. Skattstofn gjaldsins er óbreyttur og er það innheimt áfram af vátryggingarfjárhæð brunatryggingar fasteigna og lausafjár, sem og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu.

Hér er hins vegar lagt til að gjaldið verði hækkað úr 0,045 prómillum í 0,08. Hingað til hefur brunavarnagjaldi einungis verið ætlað að standa undir rekstri Brunamálastofnunar vegna yfirumsjónar með brunavörnum en hér er lagt til að byggingaröryggisgjaldið renni til Byggingarstofnunar og standi þannig undir kostnaði við yfirumsjón byggingaröryggismála almennt.

Með því að leggja slíkt gjald á brunatryggingar er gjaldtökunni dreift á mörg ár, þ.e. á allan líftíma mannvirkisins í stað þess að innheimta hærra gjald einu sinni í upphafi mannvirkjagerðar. Eigendur mannvirkja eiga að njóta góðs af yfireftirliti og umsjón Byggingarstofnunar allan líftíma mannvirkisins og því mæla góð rök með því að sú leið verði farin.

Þetta er, herra forseti, framsöguræða mín varðandi frumvarp til laga um mannvirki. Ég vil þá snúa mér að frumvarpi til nýrra skipulagslaga, en þau eru mjög þýðingarmikill málaflokkur umhverfismála og verða sífellt umfangsmeiri með vaxandi byggð og atvinnustarfsemi, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar.

Við gerð skipulags eru teknar ákvarðanir um framtíðarnotkun lands, hvers konar framkvæmdum sé verið að stefna að og hvernig þær falla að annarri landnotkun. Áhrif skipulags á þróun umhverfisins eru í æ ríkari mæli skoðuð samhliða mótun skipulags og þannig verður skipulagsgerð stöðugt mikilvægara tæki til umhverfisverndar og til að treysta sjálfbæra þróun í sessi.

Þar sem skipulag er í eðli sínu langtímastefnumörkun hentar það einnig mjög vel sem tæki til umhverfisverndar. Það er grundvallaratriði að vandað sé til verka við gerð skipulags og leitað sé eftir sjónarmiðum þeirra sem skipulagið snertir. Ekki síst er mikilvægt að skipulagsyfirvöld taki ákvarðanir sem eru í sem mestri sátt við íbúa og atvinnulíf sem í hlut eiga. Við ákvörðun um skipulag þarf því oft að horfa til andstæðra sjónarmiða og mikilvægt er að þau séu skoðuð gaumgæfilega og fundinn sé farvegur sáttar.

Í frumvarpi til nýrra skipulagslaga er að finna ýmis nýmæli og breytingar á skipulagsþætti gildandi skipulags- og byggingarlaga. Áhersla er lögð á samráð og kynningu við gerð skipulagsáætlana, bæði gagnvart almenningi og opinberum aðilum. Þannig er aukin aðkoma almennings og samráðsaðila við gerð skipulags. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að almenningur og hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun við afgreiðslu skipulagsáætlunar. Þetta kemur m.a. fram í markmiðsákvæði frumvarpsins þar sem kveðið er á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana og þá er mælt fyrir um svokallaða lýsingu skipulagsverkefnis þar sem gera á grein fyrir áherslum við gerð skipulags, forsendum þess og fyrirliggjandi stefnu og hvernig samráð og kynningu verði háttað gagnvart íbúum og hagsmunaaðilum.

Gert er ráð fyrir að vinna við gerð svæðis aðal- og deiliskipulags hefjist með lýsingu á skipulagsverkefninu. Með því er lögð áhersla á að vinna við gerð skipulags sé unnin á gagnsæjan hátt allt frá upphafi. Lögð er áhersla á að skipulagsgerð sé skilvirk og jafnframt sveigjanleg, svo sem varðandi breytingar á skipulagsáætlunum og afgreiðslu þeirra. Þannig er m.a. lagt til að Skipulagsstofnun sé falið það hlutverk að staðfesta svæðis- og aðalskipulagstillögur í stað umhverfisráðherra. Þó er gert ráð fyrir staðfestingu umhverfisráðherra í ákveðnum tilvikum. Með þeirri breytingu er ætlunin að einfalda stjórnsýslu þessara mála þannig að eitt stjórnvald komi að staðfestingu skipulagstillagna í stað tveggja áður og mun það auka skilvirkni við afgreiðslu mála. Skipulagsstofnun mun hafa sama hlutverk og ráðherra varðandi yfirferð skipulagstillagna og á meðal annars að gæta þess að þær séu í samræmi við lög, svo sem samþykkta landsskipulagsáætlun.

Þá er lagt til að lögfest verði svokallað rammaskipulag en slíkt skipulag er heildstæð áætlun um uppbyggingu og skipulag ákveðinna hluta aðalskipulags og gefur fyrirheit um hvernig það verður útfært í deiliskipulagi sem veitir íbúum sveitarfélagsins betri upplýsingar um fyrirhugaða framtíðarnotkun lands. Lögð er áhersla á að skýra hlutverk skipulagsáætlana á mismunandi skipulagsstigum og samspil þeirra svo komið sé í veg fyrir skörun einstakra skipulagsáætlana til að tryggja skilvirkni.

Lagt er þannig til að skýr greinarmunur sé á svæðisskipulagi og aðalskipulagi. Svæðisskipulagið skal einungis fjalla um sameiginleg hagsmunamál þeirra sveitarfélaga sem standa að því en ekki almennt um staðbundnar ákvarðanir um landnotkun. Ekki er gerð krafa um að svæðisskipulag taki til alls lands viðkomandi sveitarfélaga heldur getur svæðisskipulag tekið til heilla landshluta eða ákveðinna þátta landnotkunar sem nær til fleiri en eins sveitarfélags.

Jafnframt er lögð áhersla á að tryggja betur að skipulagsákvarðanir eigi þátt í að stuðla að sjálfbærri þróun um leið og þær séu betur færar um að stuðla að öðrum markmiðum frumvarpsins.

Í frumvarpinu er kveðið sérstaklega á um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins og er lagt til að starfrækja skuli svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins sem fer með breytingar og framfylgd þess skipulags.

Í frumvarpinu er skilgreint með skýrum hætti til hvers konar ákvarðana deiliskipulag skuli taka, eins og varðandi útlit mannvirkja og form. Þar sem hér er um stefnumótandi þætti að ræða er lagt til að kveðið sé á um slíka þætti í deiliskipulagi en það sé ekki hluti af umfjöllun um veitingu leyfa vegna mannvirkjagerðar eins og nú gildir.

Í ljósi framkvæmdarinnar er talið nauðsynlegt að fyrir hendi sé úrræði til að tryggja eftirfylgni á stöðvun framkvæmda í þeim tilvikum þar sem framkvæmdir eru ekki í samræmi við lög. Skipulagsstofnun er fengið slíkt hlutverk í frumvarpi þessu en stofnunin hefur að ákveðnu leyti gegnt eftirlitshlutverki með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum með því að vera í samskiptum við einstaka sveitarstjórnir og benda á atriði sem lagfæra þarf oft eftir ábendingar sem stofnuninni hefur borist. Hér er lagt til að stofnunin geti fylgt slíkum ábendingum eftir ef á þarf að halda.

Í gildandi lögum er ekki fyrir hendi skýr farvegur fyrir ríkisvaldið til að setja fram almenna stefnumörkun í skipulagsmálum sem markar stefnu um skipulagsákvarðanir sem varða almannahagsmuni og sem geta leyst úr ágreiningsmálum, t.d. á milli ríkis og einstakra sveitarfélaga, um skipulagsmál er varða þjóðarhagsmuni.

Eins og í gildandi skipulags- og byggingarlögum verður höfuðábyrgð á skipulagsgerð áfram hjá sveitarfélögum um leið og lögð er áhersla á forræði sveitarfélaga á skipulagsmálum er hins vegar viðurkennd þörf á að ríkisvaldið leggi til heildstæða sýn í skipulagsmálum í svokallaðri landsskipulagsáætlun sem lögð verður til grundvallar við skipulagsgerð sveitarfélaga og sem þau eru bundin af við gerð skipulags.

Hér væri fyrst og fremst um að ræða stefnumótun um landnotkun sem varðar almannahagsmuni svo sem um grunngerð á landsvísu eins og samgöngukerfi, orkuöflunar- og dreifikerfi, náttúruvernd, útivist og aðra landnotkun á svæðum sem varðar þjóðarhagsmuni, eins og miðhálendi Íslands, þar sem horft er til þess hvernig framtíðarnotkun lands eigi að vera á því svæði með tilliti til orkunýtingar, náttúruverndar og umferðar.

Þannig er landsskipulagsáætlun fyrir miðhálendi Íslands stefnumörkun ríkisvaldsins um frekari uppbyggingu á því svæði eins og orkunýtingu, vegaframkvæmdir og staðsetningu nauðsynlegra skipulagsþátta. Jafnframt yrði í landsskipulagsáætlun sett fram heildstæð áætlun um verndun svæða á miðhálendi Íslands sem samkomulag væri um að ekki eigi að nýta til framkvæmda heldur halda sem ósnortnum til upplifunar og útivistar. Landsskipulagsáætlun verði lögð fram á Alþingi sem tillaga til þingsályktunar eftir víðtækt samráðsferli í stjórnkerfinu og við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að fyrsta landsskipulagsáætlunin verði lögð fram á Alþingi árið 2009 og fjalli um stefnumörkun á miðhálendi Íslands. Eins og áður sagði er gert ráð fyrir að aðalskipulags- og svæðisskipulagstillögur sveitarfélaganna verði að meginstefnu til háðar staðfestingu Skipulagsstofnunar og hefur Skipulagsstofnun það hlutverk að sinna eftirliti með skipulagsákvörðunum sveitarfélaga og tryggja að samræmi sé á milli skipulagsáætlana og við stefnu ríkisins varðandi landnotkun og byggðaþróun.

Þá er lagt til að samvinnunefnd miðhálendisins, sem fer með skipulagsmál á miðhálendi Íslands, verði lögð niður. Við fyrirhugaða gildistöku frumvarpsins 1. janúar 2009, verði það að lögum, eiga öll sveitarfélög í landinu hafa lokið við gerð aðalskipulags í sínu sveitarfélagi, en í gildandi lögum er kveðið á um að að liðnum tíu árum frá gildistöku þeirra laga, eða 1. janúar árið 2008, skuli öll sveitarfélög hafa gert aðalskipulag. Þannig verður við gildistöku þessa frumvarps lokið því mikilvæga hlutverki samvinnunefndar miðhálendisins að samræma aðalskipulag sem liggur að miðhálendinu við svæðisskipulag miðhálendisins.

Þá er lagt til að umhverfisráðherra leggi fram á Alþingi 2009 fyrstu tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsáætlun en henni er ætlað að fjalla um stefnumörkun á miðhálendi Íslands eins og ég hef þegar sagt. Fyrstu landsskipulagsáætlun er þannig ætlað að taka yfir stefnumótandi þætti svæðisskipulags miðhálendisins. Með vísan til framangreindra breytinga á skipan mála er ekki talin þörf á að samvinnunefnd miðhálendisins haldi áfram störfum þar sem lagt er til að verkefni hennar verði færð til ríkisvaldsins og viðkomandi sveitarfélaga.

Herra forseti. Ég hef rakið meginefni þessara tveggja frumvarpa, annars vegar frumvarps til laga um mannvirki og hins vegar frumvarps til skipulagslaga. Ég legg til að þeim frumvörpum verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.

En rétt er að taka fram, herra forseti, að þessi mál eru seint fram komin, mun seinna en ráðagerð var um. Í þeirri tilvísun felst ekki sú ætlun til umhverfisnefndar að þessum málum verði lokið fyrir þinglok, en þrátt fyrir það vil ég árétta það geysimikla umsagnarferli sem frumvörpin fóru í, til um 160 aðila og 70 aðilar skiluðu umsögnum. Frumvörpin hafa jafnframt verið á heimasíðu ráðuneytisins þar sem almenningi hefur verið gefinn kostur á að skila athugasemdum um þau. Það hafa því margir lagt hönd á plóginn með athugasemdir um frumvörpin.