133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[18:57]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að skýra þetta mál þá er það svo að samtök kaupskipaútgerða í Evrópu gera kjarasamning við Alþjóðaflutningaverkamannasambandið. Þar er lágmarkssamningur í gildi. Einstaka útgerðir og einstaka útgerðarmenn, eins og dæmið er um frá Grundartanga, sem reyna að komast undan þeim samningi og greiða mönnum lág laun og kjörin og jafnvel aðbúnaður um borð í skipum í samræmi við það. Þetta eru skip sem eru á mörkum þess að teljast hæf til siglinga. Enn er nokkuð til af þeim en með hertum reglum og alþjóðasamstarfi Siglingamálastofnunar og IMO þá fækkar þeim.

Varðandi kaup og kjör þessara aðila (ITF) held ég að stéttarfélög og samtök sjómanna séu sátt og þeim er mjög í mun að frumvörpin tvö, sem bæði fjármálaráðherra og hæstv. samgönguráðherra hafa lagt fram, nái fram að ganga. Auðvitað mun samgöngunefndin fara yfir þessa þætti og boða þessa aðila til sín, bæði fulltrúa sjómanna og útgerðar til að fara yfir og smíða þann texta svo falli að umhverfinu og því sem er að gerast á hinum Norðurlöndunum til að skapa starfskjör fyrir kaupskipaútgerðir undir alþjóðaskrá, íslenskum fána.

Við skulum ekki gleyma því að það er dapurt ástand í eyríkinu Íslandi að ekkert kaupskip skuli vera skráð hér. Þess vegna þurfum við öll að leggja okkur öll fram í þinginu um að koma þessu frumvarpi áfram svo við förum að sjá kaupskip sigla undir íslenskum fána að og frá landinu en auðvitað að uppfylltum kröfum um öryggi sjómanna og launakjör.