133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:11]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil gera athugasemd við stjórn fundarins. Ég er alls ekki sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég er á því að við eigum að fara að þeim lögum sem gilda um fundarstjórn og fylgja fundarsköpum Alþingis. Við höfum því miður slæma reynslu af því að farið sé á svig við þessi fundarsköp.

Ég vil nefna það þegar ekki var virt samráð, þegar ríkisstjórnin ákvað að styðja árás á Írak. Þá var einmitt farið á svig við lögin. Ég vara við því sem er verið að boða hér, að fara á svig við fundarsköp Alþingis og þróa með einhverjum hætti eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra talaði um. Mér finnst það mjög vafasamt.

Það liggur fyrir tillaga frá forseta með ýmsar tillögur um breytingar á fundarsköpum. Mér finnst miklu nær að taka það fyrir í stað þess að tala um einhverja þróun og að hægt sé að kippa hinum og þessum ráðherra fram fyrir í umræðum um mál og fara á svig við reglu sem hefur gilt, sem hefur gilt fram á þennan dag og oft verið notuð til útskýringa á því hvers vegna menn fái ekki að taka til máls, þ.e. að menn fá orðið í þeirri röð sem þeir biðja um það.

Mér finnst að við eigum að halda okkur við þá reglu. Annað tel ég algjörlega ósæmandi. Ég vona að hæstv. forseti stjórni fundum framvegis með öðrum hætti en hann stjórnaði fundi áðan.