133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

mælendaskrá í athugasemdum.

[11:15]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ein lítil athugasemd í tengslum við umræðu um fundarstjórn forseta. Hér kom formaður Framsóknarflokksins í pontu fyrir stundu og talaði andheitur um heiðursmannasamkomulag sem hefði verið rofið, það væri venja að formenn þingflokka fengju að vita þegar þingmenn ætluðu að kveðja sér hljóðs undir dagskrárliðnum um störf þingsins. Það er alveg rétt að þetta var ekki rætt áður, enda ákvörðun tekin um það skömmu áður en þingfundurinn kom saman. Hv. formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins gæti gagnrýnt okkur fyrir þetta en ekki formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Áður en fundur var settur ræddum við einmitt þetta mál (HjÁ: Er þingfundur hófst.) og ég skýrði honum frá því hvernig tildrögin væru, að þessi ákvörðun væri nýtilkomin. Þess vegna ætti hv. þm. Hjálmar Árnason að tala varlega um rofin heiðursmannasamkomulög.