133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:42]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að í fyrsta lagi eigum við ekki að fara að semja hér um stjórnarskrána í pontu, í ræðum og andsvörum, það sé kannski betra að gera það einhvern veginn öðruvísi, við ættum að sýna stjórnarskránni þá virðingu að hún sé ekki í einhverju uppboðsferli í þingsalnum. (Gripið fram í.) Ég sagði mjög skýrt, virðulegur forseti, og eitthvað hefur þingmaðurinn misskilið ef hann telur að Samfylkingin vilji eingöngu beina sjónum sínum að auðlindum sjávar. Það voru alls ekki mín orð. Ég sagði að við hefðum verið til samkomulags um það, ef það hefði mátt liðka fyrir málinu, að láta þetta einvörðungu ná til auðlinda sjávar. Við viljum hins vegar hafa þetta ákvæði víðtækara. Við viljum hafa það með þeim hætti sem gengið var frá því í auðlindanefndinni. Hitt bauð ég fram og sagði að það hefði verið hugmynd stjórnarandstöðunnar að reyna að ná sáttum og málamiðlun með þessum hætti.