133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[16:48]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ábyrgur stjórnmálaflokkur eins og Samfylkingin rústar auðvitað aldrei atvinnugrein eða fyrirkomulag sem viðgengst í einni atvinnugrein. Það á auðvitað þingmaðurinn að vita. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þingmaðurinn er áhugamaður um að útgerðarmenn eigi kvótann. Hann er áhugamaður um að þetta sé einkaeignarréttur þeirra. Þar erum við einmitt á öndverðum meiði, ég og hv. þingmaður. Ég vil koma í veg fyrir það að þeir geti slegið eign sinni á kvótann og tel því mikilvægt að fá þetta ákvæði inn. (SKK: … skoðanir sjálfur.) Við eigum ekki að afhenda kvóta varanlega eða án gjalds.

Ég hygg að hv. þingmaður vilji að hægt verði að afhenda sjávarauðlindirnar varanlega til útgerðarmanna án þess að gjald komi fyrir. Það er það sem hann vill tryggja að geti gerst. Þar erum við á öndverðum meiði, virðulegur forseti. Ef þetta er skoðun þingmannsins, sem ég held að ég fari nokkuð rétt með, þá hlýt ég líka að spyrja: (Forseti hringir.) Hvað eruð þið, ágætu stjórnarþingmenn, að meina með ákvæðinu eins og það ratar núna inn í stjórnarskrána? Hvert eruð þið að fara? Hverju viljið þið ná fram með þessu?