133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:39]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að greinargerð frumvarpsins svari spurningum hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar afskaplega vel að þessu leyti. Á bls. 2 í frumvarpinu er vísað til þess að með hugtakinu sé m.a. vísað til fullveldisréttar og sameiginlegrar ábyrgðar allrar þjóðarinnar á náttúruauðlindum Íslands og tekið sérstaklega fram að ekki sé haggað við réttindum einstaklinga og lögaðila sem njóti verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Síðar í frumvarpinu, í skýringum við 1. gr., er ítrekað að með hugtakinu þjóðareign sé lögð áhersla á þá ríku sameiginlegu hagsmuni sem allir Íslendingar hafi af nýtingu auðlinda og sagt að það sé á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hverju sinn að ákveða í hverju það er fólgið.

Auðvitað verður að ætla löggjafanum ákveðið svigrúm í þessum efnum. Stjórnarskrárákvæði er ætlað að standa til lengri tíma en ekki að veita öll svör í öllum tilvikum. (Forseti hringir.) En þar er undirstrikað á hvaða forsendum löggjafinn þarf að taka afstöðu til þeirra mála.