133. löggjafarþing — 86. fundur,  13. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[01:51]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að það hafi verið staðið við eitthvað lítið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið staðið við nánast allt sem þar er. Ég er reyndar ekki með hana hér til að krossa við það allt saman.

Eins og ég lýsti í ræðu minni er ákveðinn aðdragandi að þessu ákvæði. Ég lýsti því hvernig umræðan var á vettvangi Framsóknarflokksins um aflamarkskerfið og þjóðareign á m.a. fiskveiðiheimildunum. Þetta hefur verið okkur mikilvægt mál. Það hefur ítrekað komið fram, kom fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssyni og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Jóni Sigurðssyni á fimmtudaginn fyrir hálfum mánuði að við legðum mikinn þunga í þetta mál, að ná fram tillögu hér á þinginu. Það höfum við gert og nú er hún komin fram. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé bara vel af sér vikið að hún skuli vera komin fram.