133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

stjórn fiskveiða.

459. mál
[23:02]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að málið sem við ræðum hér er ein af mörgum bótum kvótaflokkanna á stagbættu handónýtu kerfi sem hefur verið til meðferðar á Alþingi síðan það var búið til á sínum tíma. Nú er ljóst að einn stærsti þátturinn í því hve umdeilt og ranglátt kerfið er, sem veldur því að staðið hafa illvígar deilur um það frá því að framsalið var heimilað fyrir 18 árum, felst í því hvaða áhrif framsalið hafði á efnahag einstaklinga annars vegar og afkomu einstakra byggða hins vegar. Það er ljóst að sumar byggðir eru kvótaháar. Hv. formaður nefndarinnar er frá Vestmannaeyjum. Þar er kvótastaða góð. Það ræðst að sjálfsögðu af ýmsu. En í öðrum byggðum er búið að selja kvótann burt og búið að hirða frá þeim heimildirnar til að veiða fisk. Við þekkjum umræður um það makalausa ranglæti.

Hér er verið að ræða um úthlutun á byggðakvóta og það að koma á skárra fyrirkomulagi en er til staðar. Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar: Voru það ekki grundvallarmistök að svæðisbinda ekki veiðiheimildirnar með einhverjum hætti strax í upphafi þegar frjálsa framsalið á veiðiheimildunum var heimilað, þessi ranglætisrúlletta fór í gang og þetta makalausa kerfi tók að starfa með þeim hætti sem við þekkjum? Hefði ekki þurft að huga að því strax í upphafi að svæðisbinda heimildirnar og koma í veg fyrir þessa þróun? Sér hv. þingmaður einhverjar leiðir til að gera það betur en hér er rætt um?