133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[20:14]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það liggja frammi tvær breytingartillögur sem hér hefur verið farið yfir. Ég vil af því tilefni árétta að þetta mál byggist á ákveðinni grunnforsendu sem er sú að einungis í ákveðnum afmörkuðum vafalausum tilvikum muni dómsmálaráðuneytið framvegis afgreiða umsóknir um ríkisborgararétt. Í öllum öðrum tilvikum fari málin til þingsins til afgreiðslu. Þetta mun hafa það í för með sér að þingið mun í auknum mæli taka endanlega afstöðu til veitingar ríkisborgararéttar. Það er verið að færa aftur til þingsins það vald að fara með þessi mál, draga til baka heimildir sem fyrir skömmu síðan voru veittar dómsmálaráðuneytinu til að ráða þessum málum til lykta.

Þetta felur það í sér að það er óskynsamlegt að opna síðan aftur glufur á málið með þeim hætti sem breytingartillögurnar gera ráð fyrir með því að færa síðan dómsmálaráðherra heimild til að leggja mat á það hvort skilyrðin eru uppfyllt eða ekki. Það er í andstöðu við meginmarkmið frumvarpsins. Ég vek athygli á því að ráðuneytinu er í fyrsta lagi alltaf heimilt að senda mál til þingsins til endanlegrar afgreiðslu og því má halda fram að ráðuneytinu sé beinlínis skylt að gera það þegar einhver vafi leikur á því hvort skilyrði laganna séu uppfyllt. Auk þess geta umsækjendur alltaf óskað eftir því að mál séu send til þingsins til endanlegrar afgreiðslu. Þannig er það tryggt í þessu máli að fullt tillit er hægt að taka til þeirra einstaklinga sem búa við þær aðstæður sem breytingartillagan gerir ráð fyrir, þ.e. þeirra sem eru hér sem flóttamenn eða njóta stöðu flóttamanna eða hafa fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Það er engin hætta á því verði málið afgreitt án breytinga að ekki sé hægt að taka tillit til þessara aðila. Það er beinlínis óskynsamlegt að opna fyrir einhverjar matskenndar ákvarðanir í máli eins og þessu sem er einmitt ætlað að draga skýrari línur en gilda í dag.