133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

nefnd um ferðasjóð fyrir íþróttahreyfinguna.

[20:31]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Undanfarin þing hefur komið fram tillaga til þingsályktunar um að ríkið setji á stofn ferðasjóð fyrir íþróttahreyfinguna. Þessi tillaga hefur jafnoft verið svæfð en nú ber svo við að þingsályktunin hefur getið af sér nefnd sem hæstv. menntamálaráðherra fól að gera úttekt á ferðakostnaðinum og leggja drög að stofnun ferðasjóðs.

Í svari ráðherra við fyrirspurn minni þann 2. nóvember sl. kom fram að nefndin ætti að skila af sér 1. febrúar á þessu ári og því langar mig til að spyrja hæstv. menntamálaráðherra rétt áður en þingi lýkur: Hver var niðurstaða þessarar nefndar og hvað líður stofnun ferðasjóðsins?