133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[00:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er til umræðu frumvarp sem verður væntanlega samþykkt á morgun, eftir helgi eða hvenær sem þinglok verða í vor. Við höfum náð að verða sammála um þetta í menntamálanefnd með breytingum sem við gerðum tillögu um og verður gerð grein fyrir í nefndarálitinu.

Það er rétt sem fram kom hjá formanni nefndarinnar að samstarf um þetta tókst vel þrátt fyrir ýmsar blikur á lofti í upphafi og á meðan á þessu stóð. Það er dæmi um hvernig menn geta náð árangri í sínu starfi þegar menn ná saman yfir þessar hefðbundnu línur stjórnar og stjórnarandstöðu.

Þá er að vekja athygli á því að með samþykkt þessa frumvarps er aðeins stigið lítið skref í áttina að því sem stefnt hefur verið að, að því að koma upp náttúruminjasafni. Að því hefur verið stefnt í áratugi. Sú saga er orðin dapurleg. Ég ætla ekki að rekja hana frekar. Það er gert í athugasemdum við frumvarpið ágæta vel og laglega.

En eins og ég sagði í 1. umr. um málið snýst frumvarpið fyrst og fremst um að ráða einn mann. Það verður lítið meira sem frumvarpið í raun gerir og má minna á umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins í því sambandi þar sem hún segir, ekki til að gagnrýna frumvarpið heldur til að skýra hvernig umsögn hennar er til komin, að samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins liggi engar áætlanir fyrir um uppbyggingu og rekstur náttúruminjasafnsins. Þar segir ekkert um fjölda og samsetningu starfsliðs. Það sé ljóst að þessi eini maður sem ráðinn verði samkvæmt frumvarpinu hljóti að vinna að áætlunum um stefnu, húsnæði og uppbyggingu safnsins en fjármálaráðuneytið hafði litlar forsendur til að meta kostnað við þessa áætlanagerð. Þetta er eins fátæklegt og verða má, frá menntamálaráðuneytinu eins og við höfum vakið athygli á í 1. umr., við stjórnarandstæðingar. Þó er þetta skref fram á við. Það er sem sé komið á fót svolítilli löggjöf um þetta safn og það starf hafið sem halda þarf gangandi á næsta kjörtímabili við að gera þessar áætlanir og undirbúa stofnun safnsins.

Vandinn við þetta safn er að það sprettur með nokkrum hætti út úr stofnun sem fyrir er og heitir Náttúrufræðistofnun Íslands sem varðveitir mikið vísindasafn á sínum eigin vegum, sem að hluta til byggist á hinu forna Náttúrugripasafni sem Náttúrufræðistofnun má segja að varðveiti eða hafi orðið til utan um það safn þegar það kom til ríkisins.

Þetta eru nokkuð flókin mál og verða enn flóknari við að söfn á Íslandi í ríkiseigu — eða í þjóðareigu og ríkisumsjón, sem væri réttara að segja, þótt orðalagið sé öðruvísi af einhverri kreddu í frumvarpinu, ég hirði ekki um það og hef ekki nennt að skeyta um það í umfjöllun um þetta mál — að slík söfn heyri undir menntamálaráðuneytið. En Náttúrufræðistofnun heyrir samkvæmt eðli máls undir umhverfisráðuneytið. Þess vegna er hætt við að í þeim samskiptum sem Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn eiga í framtíðinni, ef þau gerast stríð eða upp kemur einhver misskilningur, að við bætist sá núningur sem getur orðið á milli ríkisstofnana, núningur sem upp kemur í mannlegum samskiptum, og magnist upp vegna þess að hér eru tveir húsbændur, annars vegar umhverfisráðherra, hins vegar menntamálaráðherra.

Mér er minnisstætt úr nefndarstarfinu að við fengum fjölmarga ágæta gesti sem sögðu sína skoðun á málinu. Mér er kannski minnisstæðast þegar kom að Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði og hún lýsti skoðun sinni á því hvað gera ætti í þessu, sem ég var ekki endilega sammála að öllu leyti en hún sagði að lokum: Hvað sem þið gerið, reynið þá að hafa hreinar línur í þessum efnum, hreinar línur um hlutverk og um stjórnskipan þannig að ekki skapist af því vandræði í framhaldinu. Þessi orð hennar höfðu nokkur áhrif á mig, m.a. vegna þess að ég hafði fylgst úr fjarlægð með atburðum sem hafa orðið einmitt á sviði Margrétar Hallgrímsdóttur og kollega hennar innan þjóðminjavörslu og fornleifafræði og í tengdum greinum þar sem nú er loksins að komast á þokkalegur friður eftir nánast áratuga úfa sem þar höfðu verið uppi.

Ég held ég megi segja að við fórum eftir þessum ráðleggingum Margrétar og reyndum að skilja sundur sem mest mátti verða hlutverk Náttúruminjasafnsins annars vegar og hins vegar Náttúrufræðistofnunar og þess vísindasafns sem Náttúrufræðistofnun styðst við. Þá verður að bæta við eða skjóta inn að tengsl vísindasafns Náttúrufræðistofnunar og starfsins á Náttúrufræðistofnun eru meiri en alla jafna er með þau söfn sem a.m.k. ég þekki best og kannski flestir, þ.e. söfn eins og Þjóðminjasafnið eða Árnasafn þar sem sjálft safnstarfið er nú nokkuð aðskilið frá rannsóknum og fræðslustarfi. En í Náttúrufræðistofnun verður varla á milli skilið vegna þess að vísindasafnið er auðvitað heimildasafn sem náttúrufræðingarnir þurfa að hafa beinan aðgang að til alls kyns sýnatöku og skoðunar og geta ekki virt fyrir sér safnið úr fjarlægð eða lesið úr safninu á netinu eins og menn geta í handritarannsóknum nú orðið, eða haft í raun og veru flest gagn sem hafa má af safnmunum með því að hafa séð hann kannski einu sinni á ævinni eða skoðað hann í bókum eins og háttar til um fornleifafræði og skyldar greinar.

Við höfum náð þessum árangri með því að byrja á safnalögunum, eins og rakið var í framsöguræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, og tiltaka að Náttúruminjasafnið uppfylli rannsóknarskyldu sína sem höfuðsafn með því að rannsaka á starfssviði sínu og við höfum síðan með því bent á starfssviðið með sérstakri tilvísun.

Starfssviðið kemur fram í 2. gr. og þó einkum í 2. mgr. 2. gr. þar sem segir að Náttúruminjasafnið safni munum sem henti starfsemi þess, skrái þá og varðveiti. Safnið aflar upplýsinga sem veita yfirlit yfir náttúru Íslands og nýtingu náttúruauðlinda innan lands og utan og annast kynningu með sýningum og annarri fræðslustarfsemi með það að markmiði að veita sem víðtækasta sýn á íslenska náttúru. Safnið skal miðla fræðslu um íslenska náttúru til skóla, fjölmiðla og almennings og annast rannsóknir á starfssviði sínu, sem er það sem að framan er nefnt.

Þar með er ljóst að Náttúruminjasafnið fæst ekki við grunnrannsóknir á sviði náttúrufræða og ekki sértækar rannsóknir á því sviði í sjálfu sér heldur fæst safnið fyrst og fremst við rannsóknir sem varða fræðslu og sýningarhlutverk safnsins. Það fæst við safnfræðilegar rannsóknir sem kalla má. En auk þess fæst það auðvitað við rannsóknir sem varða samband manns og náttúru sem ekki er grunn- eða kjarnaverkefni Náttúrufræðistofnunar eða annarra þeirra stofnana sem við höfum komið okkur upp til að rannsaka náttúruna.

Þetta höfum við gert og síðan vann nefndin í því að útfæra þessa hugsun í gegnum frumvarpsbálkinn og í raun og veru leit nefndin svo á að um safnkostinn gegndi sama máli. Þar eiga líka að vera hreinar línur. Við gerum ráð fyrir því að Náttúrufræðistofnun og Náttúruminjasafn geri með sér samning um afnot af safnkostinum. Í fyrsta lagi um það hvað Náttúruminjasafnið eigi að hafa í sinni vörslu eða hvort það eigi að hafa eitthvað í sinni vörslu af þeim safnkosti sem Náttúrufræðistofnun Íslands er yfir og þá hvað. Við bendum á að hafa til hliðsjónar samninginn sem Eysteinn Jónsson og Sigurður Þórarinsson skrifuðu undir, þetta er skemmtilegt að sjá á blaði, frá 1947. En hann verður nú aðeins hafður til hliðsjónar því málin hafa breyst ansi mikið síðan.

Ég vil segja í þessu sambandi og tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að Náttúruminjasafnið verður að hafa safnlegt samstarf við fleiri stofnanir og nýta sér náttúrugripasöfn annarra rannsóknarstofnana en Náttúrufræðistofnunar. Í sjálfu sér tel ég ekki nauðsynlegt að Náttúruminjasafnið hefji starf sitt á því að koma sér upp víðtækum safnkosti. Ég held að nútímalegt safn þurfi í raun og veru ekki á slíku að halda, geti það verið í samstarfi við vísindasöfn og annars konar söfn í því efni, og það eigi ekki að gera sér erfitt fyrir með því að hefja mikla söfnun muna og gripa heldur eigi það að byggja á því sem fyrir er. Ég get ímyndað mér það, þótt ég sé ekki að mæla með því fyrir þetta safn, að Náttúruminjasafn Íslands sé hægt að reka án þess að safnið eigi nokkurn einasta safngrip í sjálfu sér, hafi það trygga samninga um afnot af gripum og munum til langs tíma og skamms í öðrum söfnum og þá sérstaklega vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þannig að við vorum að reyna að útfæra hinar hreinu línur í þessu máli líka.

Ég vil svo halda áfram og taka undir með félaga mínum í nefndinni, hv. þingmanni Kolbrúnu Halldórsdóttur, um að næstu skref sem stíga þarf er að það þarf að gera áætlanir um uppbyggingu safnsins, um safnstefnuna. Það þarf að gera samninga við Náttúrufræðistofnun Íslands og aðrar stofnanir og rannsóknarmiðstöðvar og það þarf að ganga rösklega í að leysa húsnæðismál Náttúruminjasafnsins annars vegar og hins vegar Náttúrufræðistofnunar Íslands og vísindasafna þess.

Nú ætla ég ekki að fara að kalla á neina ráðherra til þess að gera þetta, enda eru þeir ekki viðstaddir, heldur lýsa því yfir fyrir mína hönd að ég tel þetta mál vera næsta stórverkefnið í menningarframkvæmdum á Íslandi og held ég geti sagt það án þess að ég sé hátíðlegur að þetta sé að verða sameiginlegt álit flestra þeirra stjórnmálamanna sem láta sig þetta varða. Að minnsta kosti líti stjórnarandstöðuflokkarnir svo á að það verði hlutskipti þeirra ef þeir komast í stjórn í menningarmálum, og umhverfismálum reyndar líka, að koma þessu mjög rækilega af stað.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar en segja um ræðu Kolbrúnar Halldórsdóttur að öðru leyti, sem var prýðileg, að ég gat þó ekki fylgt henni í óskum hennar um að setja inn í lögin miklar upptalningar um aðrar rannsóknarstofnanir. Ég taldi það óþarft og væri nóg að minnast á það í nefndarálitinu. Ég sá ekki hvaða tilgangi það þjónaði, m.a. vegna þess að frumvarpið er auðvitað fyrst og fremst svolítil beinagrind sem á eftir að setja inn í líffæri og utan á vöðva og skinn og setja heilann í höfuðkúpuna og gera annað það sem galdrameistarar gera til þess að smíða nýjar lífverur. Það er nú töluvert eftir í það hvað Náttúruminjasafnið varðar. Ég veit ekki alveg hvort þessi samlíking er algerlega smekkleg en hún varðar svona nokkurn veginn það efni máls sem við ræðum hér, náttúruna og samhengi hennar.

Að lokum hefur mér verið bent á vanda sem við áttum ekki við í menntamálanefnd og er ekki í frumvarpinu en er þó í safnalögum. En þar segir að forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, og vísindasafna hennar þar með, sitji í safnaráði. Það er mikilvægt starf sem fer fram í safnaráði. En þar á hann að sitja — ég er nú ekki með orðalagið hér í pontu — þangað til Náttúruminjasafnið er sett á stofn. Ég geri mér satt að segja ekki alveg grein fyrir því hvort Náttúruminjasafnið hefur verið sett á stofn við samþykkt þessa frumvarps sem laga. En ég tel þó að það sé ekki og þess vegna liggi fyrir að menn þurfi að finna, verði þetta frumvarp að lögum, þann heppilega áfanga í þeirri vinnu sem fram undan er til þess að geta kallað hann stofnsetningu Náttúruminjasafns og þar með taki forstöðumaður þess við af forstöðumanni Náttúrufræðistofnunar Íslands í safnalögunum.

Ég vek athygli á þessum vanda og legg til þessa túlkun á honum eins langt og hún nær því það er sennilega ekki heppilegt fyrir hinn nýja forstöðumann sem fær mikil verkefni að glíma við að þurfa þar að auki að setjast í safnaráð án nokkurra safnmuna, án húsnæðis, og án nokkurra starfsmanna. Hins vegar er eðlilegt að sá sem gætir hins mikla vísindasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands, þar með hins gamla eða forna náttúrugripasafns, sé fulltrúi náttúrugeirans í því ráði þangað til nýr maður getur tekið við.

Að lokum þetta. Eitt af því sem við ræddum og hugleiddum í nefndinni var nafn þessa safns, Náttúruminjasafn Íslands, sem áður gekk undir nafninu Náttúrugripasafnið. Mönnum þykir það eitthvað betur við hæfi að kalla þetta náttúruminjar en náttúrugripi. Ef til vill er átt við að það séu ekki aðeins hamir af fuglum eða einstakir þeir gripir sem við þekkjum úr slíkum söfnum frá fornu fari sem átt er við, heldur alls kyns minjar aðrar. En nafnið er ekki alveg heppilegt. Það er í fyrsta lagi dálítið langt og stirt og þar að auki er skýringin á náttúruminjum í lögum, sem má segja að séu á næsta bæ, í náttúruverndarlögunum, ekki heppileg að þessu leyti því náttúruminjar samkvæmt þeim eru annars vegar náttúruverndarsvæði eða náttúrusvæði og hins vegar lífverur og kerfi þeirra o.s.frv. Þess vegna er nokkuð óljóst hvað þetta þýðir.

Okkur datt í hug að þetta safn gæti heitið Náttúrusafn Íslands en vorum nú ekki nógu djörf til þess að leggja það til í breytingartillögum okkar þannig að ég sendi þá hugmynd hér með til framtíðar og getur vel verið að hún gangi upp. Því eflaust þarf að bæta þau lög sem úr þessu verða verulega þegar búið er að marka safninu stefnu, útvega því húsnæði og koma því í þann gang sem vert er fyrir íslenska menningu og íslenska náttúru.