133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[15:27]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem töluðu um 4. gr. í frumvarpinu. En mig langar til að lýsa yfir ánægju með það sem kemur fram hér í umræðunni að sveitarfélögin hafi í sjálfu sér neitunarvald gagnvart þessu. Það er auðvitað mjög mikilvægt og ber að undirstrika það.

Það sem er hins vegar ekki nógu skýrt í frumvarpsgreininni eins og hún er er að hin almenna regla sé að nektarsýningar séu bannaðar. Það segir í frumvarpstextanum eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.“ — En svo kemur strax í næstu setningu: „Leyfisveitandi getur þó heimilað í rekstrarleyfi samkvæmt lögum þessum að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila …“ — Sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir minntist á í máli sínu.

Ef athugasemdin við 4. gr. í frumvarpstextanum er lesin er ekkert talað um að almenna reglan sé bann. Það er mjög alvarlegt. Mér þykir því mjög gott að fá það undirstrikað hér af hv. þingmönnum sem starfa í nefndinni að almenna reglan sé sú að nektardans sé bannaður á veitingastöðum. Eins og segir í skýringartexta með 4. gr. er þetta miklu veikara. Þar segir einungis: „Í gildandi lögum er gert ráð fyrir flokki veitingastaða sem kallast „næturklúbbar“ þar sem heimilt er að fram fari nektardans. Þar sem flokkun frumvarpsins byggist á öðrum sjónarmiðum en í gildandi lögum er kveðið á um það í 4. mgr. að heimila megi slíkan dans á veitingastöðum í stað þess að slíkt falli undir ákveðinn flokk. Ekki eru gerðar efnislegar breytingar á þeirri heimild sem er í gildandi lögum fyrir slíku en rétt þykir til áréttingar að taka fram að einkadans sé bannaður og sýnendum sé óheimilt að fara um meðal áhorfenda en samsvarandi ákvæði er í lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar og eru þeir „næturklúbbar“ sem eru starfandi dag bundnir af því.“

Hér er því veikur texti til staðar. En mér þykir gott að fá þessa undirstrikun frá hv. þingmönnum vegna þess að við stöndum auðvitað frammi fyrir því í Reykjavíkurborg, eins og fram kemur í nýjasta hefti Krónikunnar, að vændi sé stundað á Íslandi í tengslum við nektarstaðina. Þar kemur fram að á höfuðborgarsvæðinu séu nú starfræktir að minnsta kosti sex nektarstaðir, þar af fjórir í miðbæ Reykjavíkur, og þrátt fyrir þrálátan orðróm og ásakanir þess efnis að þar fari fram skipulegt vændi hafi yfirvöldum ekki tekist að sanna það.

Ljóst er að hér er við ákveðið vandamál að etja sem hv. samgöngunefnd þarf að vera sér meðvituð um og við sem hér í þessum sal sitjum þurfum að gera bragarbót á. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, það munum við gera svo um munar þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum í vor.