133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[17:23]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Málið sem við nú greiðum atkvæði um er eitt best unna mál sem við höfum komið með inn í þingið í langan tíma. Það var unnið í stórri nefnd þar sem voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, fagaðilar og hagsmunaaðilar. Það var sent til umsagnar í sumar og það kom 101 umsögn inn, málið var unnið frekar og síðan kom það hingað inn í þingið og hefur fengið afar góða og faglega umfjöllun í hv. heilbrigðisnefnd.

Þaðan kemur það út á einu nefndaráliti, þ.e. það er ekki nefndarálit meiri hluta og svo annað nefndarálit minni hluta, einungis kemur eitt nefndarálit þannig að mér finnst hafa tekist afar vel til við vinnslu málsins í þinginu. (Gripið fram í.) Málið er mikilvægt, við erum að setja rammalöggjöf um heilbrigðisþjónustuna, skýra mjög leikreglur innan þjónustunnar. Hér er því um afar mikið framfaraskref að ræða í þjónustu okkar sem reyndar er meðal þeirrar bestu í heiminum eins og hv. þingmenn þekkja.

Ég þakka sérstaklega heilbrigðisnefnd fyrir vel unnin störf af því að þetta er afar stórt mál og ég veit að því verður fagnað innan heilbrigðisþjónustunnar að þetta mál sé í höfn. Ég er afar ánægð með að það skuli fá afgreiðslu hér í lok þings.