133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:10]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg viðurkennt að það sem hefur gerst í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til fjölgunar bifreiða hefur kannski verið miklu meira en stjórnvöld gerðu sér grein fyrir. Eins og áður hefur komið fram er búið að vera mikið góðæri og bílaeign landsmanna er orðin miklu meiri en gert var ráð fyrir og allar umferðarspár hafa nánast sprungið.

Ég vildi þó aðeins, af því að hv. þingmaður kom inn á höfuðborgarsvæðið, geta þess sérstaklega og ég þykist vita að hv. þingmaður muni að 1994 þegar R-listinn komst til valda í Reykjavík voru mikil plön að undirbúningi frágangs og smíði mislægra gatnamóta Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar, (Gripið fram í.) en það var tekið af dagskránni. Það var dálítið merkilegt.

Í annan stað er það svo með þessa blessuðu Sundabraut að þar hafa menn verið að kasta því fjöreggi á milli sín og ekki fundið þeim vegi endanlegan stað svo menn geti verið sáttir. Hins vegar er verið að vinna að því núna og vonandi tekur það einhvern enda svo hægt sé að fara að vinda sér í Sundabrautina. Til stendur að gera mislæg gatnamót Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar og hefur verið unnið víða að því á öðrum stöðum eins og t.d. Breiðholtsbraut/Reykjanesbraut og fleiri staði mætti nefna. Stefna Vegagerðarinnar er að þeir sem aka eftir Sæbraut og Reykjanesbraut geti ekið í einum rykk alveg út að Hafnarfjarðarvegi án þess að þurfa að tefjast við nokkur gatnamót því á (Forseti hringir.) umferðarmestu gatnamótin á að setja mislæg gatnamót.