133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:12]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að benda hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni á það að umferðaraukning gerist ekki í einu vetfangi. Það er þróun eins og sjá má af línuritinu sem ég er með hérna. Hlutirnir eiga því alls ekki að koma á óvart.

Sama er að segja um flutning til höfuðborgarinnar. Það er þróun og það þarf auðvitað að hafa rænu á að bregðast við henni. Það er ekki borgaryfirvalda einna að bregðast við. Það þarf að gerast í samvinnu við ríkið og viljann til samvinnu af hálfu samgönguráðherra hefur skort þangað til núna en mér sýnist sem betur fer að viljinn sé að glæðast hjá hæstv. ráðherra.

Ég geri mér líka grein fyrir að það eru uppi góðar hugmyndir um að bæta ástandið í borginni. Það er hins vegar seint og um síðir sem á að koma peningur í það. Þó það hafi verið bætt inn milljarði núna, sem betur fer, eru áætlanir um t.d. göng undir Öskjuhlíðina mjög seint á dagskrá samkvæmt löngu samgönguáætluninni.

Það eru svo sannarlega mörg verkefni sem bíða, virðulegi forseti, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur, eins og ég benti á, ekki síst úti á landi. Skoðun mín er sú að á Vestfjörðum þurfi að fara í alveg sérstakt átak í samgöngumálum ef þingmenn hafa hugsað sér að þar verði byggð áfram því samgöngubætur eru algjör forsenda þess að allar aðrar aðgerðir í atvinnumálum og byggðamálum beri árangur til lengri tíma litið.