133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:29]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hugmynd er ekkert vitlausari en hver önnur. (PHB: Hún er frá mér.) Já, jafnvel þó að hún komi frá hv. þm. Pétri Blöndal. Það getur nú oft komið eitthvað af viti frá honum, eins og ég hef orðið var við hér.

Reyndar er það þannig að samtökin sem kenna sig við Hlíðahverfið, sem hafa haft sig í frammi að undanförnu og hafa áhyggjur af samgöngumálum í Hlíðunum og í Austurbænum, hafa lagt til og talað um, bæði vegna sjónmengunar, hávaðamengunar og svifryks, að leggja beinlínis Miklubrautina í stokk alla leið frá Snorrabraut og austur að Grensásvegi. Ég held að það sé mikil skynsemi í því, því að eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á að með því að fara með umferðina neðan jarðar skapast náttúrlega byggingarpláss þar sem vegirnir eru núna.

Ég held að það megi velta fyrir sér mörgum möguleikum í úrbótum á vegamálum á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í ljósi þess hve miklir peningar renna í ríkissjóð vegna umferðar. Ríkissjóður hefur tekjur upp á 50 milljarða, skilst mér, vegna bíla eða umferðar og þá eru tollar af bílainnkaupum innifaldir. Þegar við erum að tala um vegáætlun upp á 14 milljarða þá er samt ýmislegt enn eftir í ríkissjóði sem ætti auðvitað að langmestu leyti að fara í það að bæta þau samgöngumál sem við erum að tala um (Forseti hringir.) vegna þess að það blasir alls staðar við og þessi mál eru, eins og ég sagði áðan, í fullkomnum ólestri.