133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[21:39]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis.

Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að tillagan verði samþykkt. Í henni er gerð tillaga um að þjóðfána Íslendinga verði komið fyrir í þingsal Alþingis. Í greinargerð með tillögunni er enn fremur lagt til að fánanum verði komið fyrir þannig að hann verði sýnilegur við eða nærri forsetastól.

Ég gerði fyrir mitt leyti fyrirvara við nefndarálit þetta og ætla að gera í mjög stuttu máli grein fyrir honum. Hann byggir í fyrsta lagi á því að nefndin tók málið til mjög lauslegrar umfjöllunar og ég hefði kosið að nefndin hefði getað gefið sér betri tíma til að fara ofan í það. Fyrir lá myndræn hugmynd að því hvernig hægt væri að koma þjóðfánanum fyrir hér í þingsal. En fyrir mitt leyti á ég enn eftir að sannfærast um að það sé heppilegt. Set því þann fyrirvara við stuðning minn við málið að viðunandi niðurstaða geti fengist í það að finna þjóðfánanum heppilegan stað hérna í þingsalnum.

Að öðru leyti velti ég því fyrir mér hvort heppilegt hafi verið að stilla þessu máli fram sem þingmáli. Ef til vill hefði farið betur á því að það hefði komið til skoðunar að frumkvæði forsætisnefndar.