133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

þjóðfáni Íslendinga í þingsal Alþingis.

41. mál
[21:42]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Rétt aðeins um málið. Ég er einn 33 flutningsmanna tillögunnar. Það var eitt af því sem við ræddum í stuttri yfirferð í nefndinni að það væru rök fyrir því að afgreiða málið til þingsins að 33 flutningsmenn væru að tillögunni sem eins og gefur augaleið er yfir helmingur þingmanna. Hún nýtur því mikils og þverpólitísks stuðnings. Ég held að flutningsmenn séu úr öllum flokkunum eða nánast öllum flokkunum.

Ég er sannfærður um að það yrði mjög til prýði að hafa íslenska þjóðfánann hérna þar sem hann væri sýnilegur, nálægt forsetanum. Ég hef engar efasemdir um það og styð tillöguna algjörlega fyrirvaralaust. Þetta er hið besta mál.

Að sjálfsögðu væri það ágætishugmynd að fá Jónas hingað í þingsalinn eins og Jón. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur nýlega vakið þjóðarathygli á prýðilegum ljóðmælum Jónasar þannig að það væri mjög Alþingi til prýði að fá hann hér í salinn líka.

En ég styð þessa tillögu og fagna því að hún er komin til Alþingis. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur flutt þessa tillögu nokkuð oft og núna síðast með fulltingi 33 þingmanna Alþingis. Sýnir það þverpólitískan og ágætan stuðning við málið. Ég fagna því og vona að þegar þing verður sett eftir kosningar eða næsta haust verði fáninn sýnilegur mjög nálægt forsetanum.