134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[16:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mér þykja það hálfgerð leiðindi á þingsetningarfundi að hann skuli fara í þessar deilur. Það er rétt sem hér hefur komið fram að hæstv. forsætisráðherra og foringjar stjórnarflokkanna fóru yfir þetta með okkur formönnum flokkanna. Við vöruðum við þessu og töldum mjög óeðlilegt að ganga þennan veg. Okkur fannst það vera óvirðing bæði við þingsköpin og Alþingi sjálft og okkur fannst það óvirðing við höfuðatvinnuvegi Íslendinga, sjávarútveg og landbúnað. Okkur finnst það líka ógæfa ef hingað fara að koma mál frá hæstv. ráðherrum sem þeir vilja jafnvel afgreiða á þessu þingi og nefndin er ekki til staðar. Þetta skoðun mín af því að ég ber virðingu fyrir Alþingi og ég ber virðingu fyrir stórum og miklum meiri hluta á Alþingi. Ég geri eina kröfu til hans og hún er sú að hann sýni stjórnarandstöðu og minni hluta sóma í því að hlusta. Valdið er gilt og valdið er gott en valdið skemmir fyrr en varir. Þess vegna er þetta ógæfulegur þingsetningardagur.

Nú höfum við eignast nýjan forseta, hæstv. forseta Alþingis sem ég treysti til góðra verka. (Gripið fram í: Og nýjan Guðna.) Ég held að hann þurfi á þessum þingsetningarfundi að sýna að hann er forseti Alþingis, hann sé forseti okkar allra og að hann höggvi á þennan hnút. Hann er sá maður sem við verðum við svona aðstæður að setja traust okkur á og mér finnst það meiðandi fyrir þingið að ganga til slíkra verka með þessum hætti. Þess vegna skora ég á hæstv. forseta að höggva á þennan hnút. Ég tel eðlilegast að hér verði farið að þingsköpum og þau lög höfð í gildi sem við höfum markað á Alþingi og síðan í lokin, ef samstaða verður um breytingar, kjósum við nýjar nefndir í þeim anda sem meiri hlutinn hefur boðað. Margt getur breyst á stuttri vegferð hvað þá langri. Ég skora á hæstv. forseta að sýna réttlæti sitt með því að hlusta á rök minni hlutans á þessum fundi.