134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

þingsköp Alþingis.

10. mál
[17:13]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil segja að þetta er í rauninni eitt og sama málið. Verið er að gera stórkostlegar breytingar á Stjórnarráðinu sem við höfum ekki hugmynd um í hverju eru fólgnar og er byrjað hér á þingskapaumræðu. Ég verð að segja fyrir mig við hæstv. forsætisráðherra að það sem kemur mér á óvart og ég hafði farið yfir áður en hæstv. forsætisráðherra gekk í salinn og ég tala nú ekki um hæstv. utanríkisráðherra — mér þykir vænt um að sjá þau bæði í salnum — að þetta er eitthvert mesta leyniplagg, breytingar á Stjórnarráðinu, sem tveir þingmenn, annar þá forsætisráðherra, hinn væntanlegur utanríkisráðherra, hafa tekið að sér að semja um á Þingvöllum. Það liggur fyrir í þessari umræðu að mjög margir þingmenn stjórnarflokkanna hafa ekki hugmynd um hvað í pakkanum er, eins og ég fór hér yfir. Það er því mikið vald sem tveir menn geta tekið sér á hendur. Þess vegna er það auðvitað skýr krafa okkar og vonandi verður það svo að forsætisráðherra leysir frá skjóðunni, frá leyndarmálapökkunum á Þingvöllum, hér á eftir við umræðu um næsta mál.

Ég held að það væri heillavænlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að fela hæstv. forseta, nýkjörnum forseta þingsins, og forsætisnefnd að vinna að sátt um þessi mál í sumar því að í rauninni liggur ekkert á þessum breytingum.

Ég vil mótmæla þeim orðum hæstv. forsætisráðherra að lítið hafi verið um að vera í landbúnaðarnefnd á síðasta kjörtímabili. Stærstu málaflokkar landbúnaðarins voru hér vetur eftir vetur í umfjöllun í landbúnaðarnefnd og mestu breytingar sem gerðar hafa verið á stoðkerfi landbúnaðarins og hinum flóknu málaflokkum sem heyra undir landbúnaðinn. Þetta er mikil lítilsvirðing af hálfu hæstv. ráðherra í garð landbúnaðarins og þeirrar vinnu sem hann á að þekkja úr hæstv. ríkisstjórn þannig að ég vil mótmæla því. Í rauninni hafa öll lög og allir málaflokkar landbúnaðarins verið teknir til umræðu og endurskoðunar á síðustu fjórum árum.

Er þetta hin nýja virðing sem Sjálfstæðisflokkurinn ber fyrir landbúnaðinum? Er hann búinn að kokgleypa stefnu Samfylkingarinnar sem hefur ekki hingað til borið mikla virðingu fyrir íslenskum landbúnaði eða bændum, sýnt það bæði í orði og verki og ályktunum á síðasta sumri og oft síðan? Varð samkomulag um sinnaskipti á Þingvöllum í garð íslenskra bænda? Ég spyr. (Gripið fram í: Á öllum stöðum.) Það kann að vera að miklar breytingar séu fram undan í íslenskri pólitík og hæstv. forsætisráðherra sé að snúa sér einn hringinn enn í þá veru og þykir mér það nú skapleysi og ístöðuleysi að láta Samfylkinguna ná slíkum tökum á sér.

Ég valdi mér það, hæstv. forseti, að sitja í samgöngunefnd. Mér þykir mjög fróðlegt undir umræðunni um þingsköp Alþingis að fá úr því skorið sem sagt er hér á göngunum að sveitarstjórnarmálefnin séu að fara úr félagsmálaráðuneytinu yfir í samgöngumálin. Verður það mitt nýja hlutverk í samgöngunefnd Alþingis að fjalla um sveitarstjórnarmálin? Eru sveitarstjórnarmálin orðin nokkurs konar vegamál í Vegagerðinni í huga þessarar nýju hæstv. ríkisstjórnar? Ég vil því áður en þessari umræðu um þingsköpin lýkur vita í rauninni hverju þarf að breyta og hvað það er sem á að gera bæði í stjórnarráðsfrumvarpinu og með því reglugerðarvaldi sem kynna á hér á eftir.

Ég verð að segja fyrir mig, hæstv. forseti, að ég hef ekki kynnst þessu fyrr í þinginu. Ég fór yfir það áður en hæstv. forsætisráðherra kom í hús eða a.m.k. í þennan sal að í mars sl. var hann þeirrar skoðunar, sem skynsamur og rólegur og yfirvegaður hæstv. forsætisráðherra, að hafa bæri mikið samkomulag við þingflokkana á Alþingi Íslendinga um hvernig þingsköpum og Stjórnarráði Íslands yrði breytt. Hvað hefur breyst á þessum tveimur, þremur mánuðum sem gerir það að verkum að hann telur að ekkert samráð þurfi að hafa við hina flokkana? Er það sá stóri meiri hluti sem hæstv. forsætisráðherra bast heitum böndum á Þingvöllum, er það sá stóri meiri hluti sem gerir það að verkum að hann telur að þingið sé ekki merkilegra en það að menn geti nánast étið það sem úti frýs, þeir þurfi ekkert að vita hvað í pökkunum er? Ég undraði mig á því hér að í stefnuræðu forsætisráðherra var í rauninni ekkert skýrt frá þessum miklu breytingum á Stjórnarráðinu, mér sýnist allt gert út í loftið og handahófskennt og vera mikill bútasaumur eins og hér hefur komið fram, að þeim skyldi ekki gerð nánari skil í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Þetta eru ekki bara tilfinningar, hæstv. forsætisráðherra, þetta er ekki bara nöldur, þetta er umræða manna sem bera smávirðingu fyrir Alþingi Íslendinga og telja að þetta eigi ekki að vera í höndum tveggja manna austur á Þingvöllum að nóttu til í einhverju samningsþófi um allt og ekkert, sem sýna þá vanvirðu að það þurfi ekki einu sinni að skýra þingheimi frá því um hvað var samið.

Hér fer fram lýðræðisleg umræða, hér er varpað fram stórum spurningum sem engin svör fást við. Ég geri í rauninni þá kröfu, hæstv. forseti, að þessari umræðu verði frestað þar til hæstv. forsætisráðherra er búinn að að opna laumupakkana frá Þingvöllum því að bæði er ég forvitinn að heyra hvað í þeim er og kannski grunar mig að það eigi heldur ekki að segja frá því hvað í þeim er, því að kannski eiga stjórnarflokkarnir enn eftir að semja um ýmsa hluti og þurfa sumarið til þeirra verka. Það skyldi nú ekki vera að kærleiksbandið hafi runnið svo hratt saman að verkefnin séu hálfkláruð og til þeirra þurfi lengri tíma? Þá hefði líka verið heiðarlegast, hæstv. forsætisráðherra, að hleypa Alþingi sem fyrst heim og gefa sér allan tímann til að endurskoða Stjórnarráðið, leyfa forsætisnefnd að koma að þingsköpunum og leyfa stjórnmálaflokkunum öllum, eins og hæstv. forsætisráðherra vildi í mars sl., að koma að því verki hvernig Stjórnarráðinu verði skipt upp.

Ég fór yfir það, hæstv. forsætisráðherra, að allir flokkar voru í rauninni sammála um að fækka bæri ráðherrum niður í tíu. Þeir eru tólf áfram í misstórum ráðuneytum. Þetta er ekki nein óbilgirni hér, hæstv. forseti, heldur fyrst og fremst málefnalegar spurningar sem við teljum mikilvægt að sé svarað, ekki með útúrsnúningi eða tali um að við séum að derra okkur að ástæðulausu. Við viljum bara fá þetta skýrt á borðið. Ég teldi mikilvægt við þessar undarlegu aðstæður að formenn þingflokka og forustumenn flokkanna kæmu saman með hæstv. forsætisráðherra og færu yfir vinnubrögðin með honum og hæstv. forseta þingsins.