134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

þingfrestun.

[16:35]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Sumarþingi er senn lokið. Þetta þing hefur verið nokkru lengra en tvö undanfarin sumarþing, enda ný ríkisstjórn tekin við sem hefur þurft að leggja ýmis mál fyrir Alþingi. Átta frumvörp urðu að lögum á þessu þingi og tvær þingsályktunartillögur voru samþykktar.

Nú í lok þinghaldsins þakka ég þingmönnum ánægjulegt og gott samstarf þennan tíma. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð. Þann tíma sem ég hef gegnt starfi þingforseta hafa augu mín opnast enn betur fyrir því að ýmislegt má bæta í aðstöðu þingmanna og starfsháttum þingsins. Ég mun huga að þeim málum yfir sumarmánuðina og móta tillögur í þeim efnum að höfðu samráði við alla þingflokka og ríkisstjórn.

Ég óska þingmönnum og starfsfólki ánægjulegra sumardaga og vænti þess að við hittumst öll heil á ný er Alþingi kemur saman í haust.