135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

horfur í efnahagsmálum og hagstjórn.

[13:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða skuli ná að fara hér fram. Ég tel mjög mikilvægt að hægt sé að ræða strax á fyrstu starfsdögum þingsins um þær alvarlegu horfur sem við okkur blasa í efnahagsmálum og hvað varðar úrlausnarefni á sviði hagstjórnar.

Því hefur verið haldið stíft að þjóðinni undanfarin ár að hér hafi ríkt mikið góðæri og hér hafi allt verið í lukkunnar velstandi í efnahagsmálum. Þegar þetta er skoðað í ljósi staðreynda, þ.e. rýnt er í hagskýrslur og tölur, þá kemur að mínu mati talsvert annað í ljós. Veruleikinn er sá að skýrslur Seðlabankans, alþjóðlegra ráðgjafarstofnana og fyrirtækja og greiningarfyrirtækja og umsagnir þeirra hafa allar hnigið í eina átt á undanförnum missirum. Samanburður þess sem nú blasir við okkur við eldri spár og áætlanir, þó ekki sé nema frá því fyrir tveimur árum, sýna hver ósköpin hér hafa gerst. Það sem við blasir auðvitað er hagstjórn í molum og hagspár og áætlanagerð úti í hafsauga. Ég efast um að nema þá á mestu verðbólgutímum hafi skeikað jafngríðarlega miklu milli þess sem menn töldu vera í vændum varðandi t.d. verðbólguþróun og viðskiptahalla og þess sem hefur orðið raunin á.

Ef við tökum aðeins eina breytu viðskiptahallans þá blasir við okkur sú dapurlega staðreynd að síðastliðin 12 ár, ef við tökum yfirstandandi ár með og förum aftur og til og með ársins 1996, hefur aðeins einu sinni náðst jákvæður viðskiptajöfnuður, 1,5% af vergri landsframleiðslu árið 2002. Að öðru leyti eru tölurnar 1,8% í mínus 1996, 1,8% aftur 1997, 6,8% bæði árin 1998 og 1999, 10,2% í halla árið 2000, 4,3% í halla árið 2001, 1,5% í plús árið 2002 eins og áður sagði, aftur halli upp á 4,8% 2003, upp á 9,8% 2004, upp á 16,2% 2005, upp á 25,7% af vergri landsframleiðslu árið 2006 og áætlaður halli upp á 15,2% í ár.

Ég veit ekki hvort allir gera sér fyllilega grein fyrir því hvað þessar tölur segja okkur í raun, að það vantaði meira en fjórðung af landsframleiðslu, af heildarveltu þjóðfélagsins upp á að við ættum fyrir samskiptum okkar við útlönd í fyrra. Tökum haustskýrslu ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem þá sat, haustið 2005, tveggja ára gamla, nákvæmlega eins plagg og það sem við fengum í fyrradag, og skoðum hverju menn spáðu þá um framtíðina. Þá var sagt að viðskiptahallinn væri að ná hámarki á árinu. Haustið 2005 sagði fjármálaráðherra: „Viðskiptahallinn er í hámarki, við ætlum að hann verði 13,3%.“ Hann spáði að hann mundi lækka og verða 12% á árinu 2006, kominn niður í 6,4% 2007 og nánast kominn í jöfnuð árin 2008 og 2009.

Hver er niðurstaðan nú sléttum tveimur árum síðar? Hún er sú að hallinn varð ekki 13,3% 2005 og hann var ekki í hámarki, hann varð 16,2%. Hallinn varð ekki 12% árið 2006 eins og fjármálaráðherra spáði þarna. Nei, hann varð 25,7% eða rúmlega tvöfaldur og hallinn stefnir ekki í 6,4% í ár. Nei, hann stefnir í 15,2%. Og hann stefnir ekki í 2,5% á næsta ári heldur 8,8% og ekki 2,5% á árinu 2009 heldur 7,6%. Skilja menn hvað þetta þýðir, að þessi geigvænlega skuldasöfnun æðir áfram og hleðst upp? Þetta er ávísun á allt hitt, verðbólguna, hina svimandi háu vexti og það sem verst er, hina miklu erlendu skuldasöfnun. Um það segir Seðlabankinn í síðasta hefti Peningamála, þess sem út er komið. Þar er fróðleg grein eftir tvo sérfræðinga um erlenda stöðu þjóðarbúsins og þáttatekjur, með leyfi forseta:

„Staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur tekið miklum breytingum á síðustu missirum. Erlendar eignir og skuldir Íslendinga hafa margfaldast á aðeins örfáum árum, en erlendar skuldir hafa aukist talsvert meira en erlendar eignir. Hrein erlend staða þjóðarbúsins er því orðin mjög neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu og hrein skuld með því mesta sem dæmi eru um í heiminum.“

Það er og. Ef tekin er hrein skuldastaða er enginn vafi að Ísland á heimsmetið í skuldum með yfir 200% af vergri landsframleiðslu. Það er tafla í skýrslunni, Viðauki 1, og þar eru borin saman 139 ríki. Þar eru efst ríki eins og Katar, Írland og Sviss sem eiga inni allt upp í 200% af landsframleiðslu sinni, eiga meiri eignir en skuldir. Á botninum situr Ísland við hliðina á Líbanon, Laos, Kirgisíu, Mjanmar, Gana, Tógó, Fílabeinsströndinni og Serbíu og Svartfjallalandi þar sem forsætisráðherra er kunnugur.

Erum við stolt af þessu? Er þetta efnahagsundrið? Er þetta góðærið sem við höfum verið að stæra okkur af? Frumorsakir þessa eru ljósar. Þessu var spáð. Seðlabankinn varaði við þessu, OECD varaði við þessu, Alþjóðabankinn varaði við þessu, að hinar gríðarlegu stóriðjufjárfestingar, svo ekki bættust nú við tugmilljarða skattalækkanir í þenslunni og mistökin sem menn gerðu á fasteignamarkaði, hlytu að valda slíkri upplausn í hagstjórninni. Og nú stöndum við frammi fyrir því nema hvað þetta hefur orðið u.þ.b. tvöfalt verra en menn spáðu fyrir tveimur árum síðan. Skekkjurnar eru frá 100 upp í 200%, því miður í öfuga átt, í átt til meiri viðskiptahalla, hraðari erlendrar skuldaaukningar og ört versnandi stöðu þjóðarbúsins. Þess vegna endurtaka alþjóðlegar ráðgjafarstofnanir varnaðarorðin, þess vegna lækkar lánshæfismat Íslands.

Hver er staðan nú? Hún er auðvitað sú að í fyrsta lagi tikka nú kosningavíxlar fyrri ríkisstjórnar og setja fjármuni í umferð. Margt af því var þarft og gott að gera en það þarf að hafa það í huga samt. Í öðru lagi koma til mótvægisaðgerðirnar. Auðvitað þarf að grípa þar til ráðstafana og það væri vel viðráðanlegt og rýmanlegt innan hagkerfisins ef ekki kæmi annað til en það kemur fleira til. Það blasir líka við að fram undan er gríðarlegt framkvæmdamagn bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila. Það er verið að byggja tónlistarhús við höfnina í Reykjavík fyrir 15 milljarða. Háskóli Íslands er í stórbyggingum. Háskólinn í Reykjavík er að fara að byggja nýtt „háskólakomplex“, nýjan „campus“ við Nauthólsvík. Landspítalabyggingin er að fara af stað og það er búið að taka frá 18 milljarða kr. í fyrsta áfangann. Það á að fara að byggja mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, 1. áfangi eða 1. hluti, 3 milljarðar kr. Tvöföldun Reykjanesbrautar er í gangi, Sundabraut er fram undan, tvöföldun Suðurlandsvegar. Landsbankinn er að fara að byggja nýjar höfuðstöðvar og fleiri fjármálastofnanir að stækka við sig. Grand Hótel er að ljúka byggingu stærsta hótels á Íslandi. Kísilflöguverksmiðja í Helguvík, aflþynnuverksmiðja er að fara af stað á Akureyri. Þar er verið að byggja menningarhús, stækka verslunarmiðstöð, það á að fara að lengja Akureyrarflugvöll og vonandi komast Vaðlaheiðargöng þar í gang og svo framvegis. Með öðrum orðum, fram undan er hrina stórframkvæmda, bæði á vegum opinberra aðila og einkaaðila, og ofan í þetta virðist ríkisstjórnin ætla að bæta þremur, fjórum, fimm risavöxnum álversverkefnum. Hvernig á þetta að rúmast innan hagkerfisins, hæstv. forsætisráðherra? Trúa menn því virkilega enn að það sé bara hægt að láta þetta flæða um dal og hól, að menn geti bara verið í útlöndum og látið þetta sjá um sig sjálft hérna heima? Til hvers er forsætisráðherra í sínu embætti ef hann reynir ekki a.m.k. að sýna lit í hagstjórninni og hvers vegna reynir ríkisstjórnin ekki frekar að vinna með Seðlabankanum en á móti honum eða breytir þá samkomulagi sínu við bankann um þau verðbólguviðmið sem bankinn skal lögum samkvæmt starfa eftir? Það þýðir ekki að kenna aðila úti í bæ, sem er bundinn af lögum frá Alþingi og samkomulagi við ríkisstjórn, um tiltekna hluti að gera ekki eitthvað allt annað. Það er ómaklegt.

Ég vona að hæstv. forsætisráðherra geti gefið okkur einhverjar upplýsingar um það hvernig ríkisstjórnin hyggst á næstunni standa að málum og veitir ekki af því að trúverðugleikaskortur hennar á þessu sviði er á góðri leið með að verða eitt af alvarlegustu efnahagsvandamálum þjóðarinnar.