135. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2007.

mótvægisaðgerðir.

[15:26]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér í dag mótvægisaðgerðir vegna skerðingar á kvóta og málshefjandi er formaður Framsóknarflokksins sem hefur nú skipt um ham.

Ég ætla aðeins að rifja það upp að þegar ég kom til leiks í pólitíkinni fyrir ári ferðaðist ég mikið um Norðvesturkjördæmið og fór að skoða ástandið þar. Og að hvaða niðurstöðu komst ég? Ákveðna þætti á landsbyggðinni þurfti að lagfæra. Það voru samgöngur, það voru menntun og þjónusta og það voru fjarskipti. Þá höfðu stjórnað landinu þeir flokkar sem við þekkjum til og formaður Framsóknarflokksins verið þar í forustuliði. Á norðvestursvæðinu nam fækkun íbúa tugum prósenta. Þannig var staðan. Við bjuggum við fiskveiðistjórnarkerfi sem hafði í för með sér að nú þarf að grípa til sérstakra aðgerða til þess að vernda þorskstofninn. Í upphafi þessa stjórnarsamstarfs stöndum við frammi fyrir því að þurfa að skera þorskkvótann niður um 30%.

Það náðist samkomulag um það í ríkisstjórninni við stofnun hennar að það skyldi vera eitt af forgangsverkefnunum — til að auka jafnrétti og jafnræði í landinu — að efla landsbyggðina og grípa til mótvægisaðgerða til að reyna að snúa við þeirri þróun sem Framsókn átti þátt í. Ég treysti á að mikil einlægni búi þar að baki, að minnsta kosti er svo af hálfu Samfylkingarinnar, og þess vegna sjáum við forgangsverkefnin í samgöngum, fjarskiptum og menntamálum. Þess vegna er ég líka sáttur við þær mótvægisaðgerðir sem hér hafa verið kynntar. Þær eru liður í því að styrkja grunngerð samfélagsins til lengri tíma og búa þannig í haginn að við getum með nokkuð góðri samvisku sagt að landsbyggðin búi við sömu kjör og höfuðborgarsvæðið, að fólk á landsbyggðinni búi við sömu kjör og aðrir landsmenn.

Við höfum búið við mikla þenslu sem hefur skapað misrétti. Það er okkar að snúa dæminu við og það er reynt með mótvægisaðgerðunum. Hvort það tekst eða ekki er í höndum þingsins og það skiptir okkur miklu máli að allir flokkar standi þar saman að verki, leggist á árar og reyni að fylgja því eftir að landsbyggðin fái forgang, ekki aðeins í mótvægisaðgerðunum heldur líka í fjárlagafrumvarpinu öllu.

Einn af kostunum við mótvægisaðgerðirnar er einmitt það sem sumir hafa gagnrýnt þær hvað mest fyrir, þ.e. að ekki er allt njörvað niður í fyrstu lotu. Það er enginn hér í þessum sal sem veit nákvæmlega hvað bíður landsbyggðarinnar í framhaldi af kvótaskerðingunni. Þess vegna er svo mikilvægt að vera tilbúinn til að grípa inn í og koma með viðbótaraðgerðir þegar komið er fram á kvótaárið, þegar við sjáum hvernig niðurskurðurinn verður. En einmitt vegna fiskveiðistjórnarkerfisins má búast við að flutningur verði á kvóta sem getur þýtt að aðgerðirnar komi með öðrum hætti niður á byggðunum en nú er reiknað með.

Í tillögunum, eins og ég sagði áður, er fjallað um samgöngur, fjarskipti og menntun. Við sjáum hvernig reynt er að efla og styrkja sveitarfélögin, það eru þau sem koma fyrst að varðandi þjónustu við einstaklingana, það eru þau sem verða að grípa inn í og hjálpa þar sem atvinnuleysi verður. Það eru þau sem verða að bregðast við stöðu fólks á hverjum tíma. Þessi sveigjanleiki í mótvægistillögunum skiptir miklu máli og það er verkefni okkar þingmanna, þegar við förum að fjalla um fjárlögin, að setja landsbyggðargleraugu á allar framkvæmdir sem fara í gang og skoða með hvaða hætti við getum hlúð að landsbyggðinni og staðið við það ákvæði í stjórnarsáttmálanum að jafnræði gildi í landinu.