135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:38]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir mjög vænt um að heyra að þingmenn Samfylkingarinnar ætla að fara að reyna að hlusta, ég verð að viðurkenna það. Ég fagna því og mun nýta mér það í framtíðinni, að minnsta kosti ef framhald verður á.

Hins vegar hefur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ekki hlýtt vel á ræðu Steingríms J. Sigfússonar í gær ef hann hefur misskilið hana með þessum hætti. Hann var einmitt að vara við þeim miklu framkvæmdum sem væru í gangi, bæði á vegum einkaaðila og líka á vegum hins opinbera. Hvað vorum við þá fyrst og fremst að tala um? Við vorum ekki að tala um vegaframkvæmdirnar sem hafði verið slegið á frest, nei.

Landsvirkjun er í opinberri eigu. Orkuveita Reykjavíkur er í opinberri eigu. Leyfin sem veitt eru fyrir stóriðjuframkvæmdum, hvort sem það eru stóriðjuframkvæmdirnar sem verið hafa í gangi á undanförnum árum fyrir austan eða á Grundartanga eða áform og undirbúningur undir frekari stóriðju, eru drifin áfram af ríkinu og ríkisfyrirtækjum sem ríkisstjórnin, ef hún vill, getur haft hemil á. Þar bregst hún. Þar köllum við eftir svörum. Við köllum eftir svörum um það hvort ríkisstjórnin ætlar að heimila eitt nýtt álver eða fleiri á næstunni. Hæstv. fjármálaráðherra viðurkennir að fjárlagafrumvarpið sé í uppnámi ef einu slíku álveri yrði hleypt af stokkunum. En það fást ekki svör um það.

Meðan þannig er staðið að málum er þess ekki að vænta að við vitum hvað framtíðin ber í skauti sér (Forseti hringir.) og þess vegna viljum við styrkja innviði samfélagsins en hætta við stóriðjuframkvæmdir.