135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[16:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 1. umr. frumvarp til fjárlaga árið 2008 og umræðan hefur fyrir margra hluta sakir verið athyglisverð. Samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér er ljóst að ríkisstjórnin hefur gefist upp á því að nýta fjárlögin sem hagstjórnartæki. Frumvarp ársins 2007 og það frumvarp sem við ræðum hér eru eins og svart og hvítt því að frumvarpið sem þáverandi ríkisstjórn lagði fram fyrir fjárlagaárið 2007 var 17,2% lægra en það frumvarp sem við við ræðum nú á tímum óstöðugleika og undirliggjandi verðbólgu í samfélaginu. Hvaða skilaboð er þessi nýja ríkisstjórn að senda út á markaðinn nú þegar Seðlabankinn stendur í því að ná tökum á stöðugleikanum og lækka verðbólguna? Jú, ríkisstjórnin birtir hér þenslufjárlög á mjög viðsjárverðum tímum sem er mjög alvarlegur hlutur. Þó að þessi ríkisstjórn hafi nýhafið störf hefur hún, eins og ég sagði áðan, strax gefist upp á því viðfangsefni að ná tökum á stöðugleikanum og verðbólgunni sem nú einkennir íslenskt samfélag.

Hæstv. forseti. Í því merka riti Stefna og horfur sem fylgir frumvarpi til fjárlaga segir á bls. 18 að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sé sett markmið um að ríkisútgjöld aukist ekki í hlutfalli við þjóðarframleiðslu frá því sem nú er. Síðasta ríkisstjórn tók upp þá góðu venju að birta langtímaáætlun í ríkisfjármálum og þessi ríkisstjórn hefur jafnframt gert það. Samkvæmt þessari langtímaáætlun og því frumvarpi sem við ræðum hér mun ríkisstjórnin ekki ná markmiðum sínum. Ríkisstjórnin mun ekki ná þessum markmiðum sem hún er nýbúin að setja sér. Samneyslan árið 2007 er áætluð 2% á meðan þjóðartekjur eða landsframleiðsla eru að aukast um 1,2%. Næstu fjögur ár verður þetta þannig að samneyslan samkvæmt þessum áætlunum eykst hlutfallslega miklu meira en landsframleiðslan. Hvar eru nú ræður samfylkingarmannanna sem töluðu um það á síðasta kjörtímabili að það þyrfti aga í ríkisfjármálum, að það þyrfti að hemja þessi útgjöld? Hvar eru þeir hv. þingmenn? Frumvörp áranna 2007 og 2008 eru að hækka um 17,2%. Ég held að við þurfum að fara aftur fyrir þjóðarsáttarsamningana til að finna viðlíka breytingar sem hafa átt sér stað á milli ára. Það er mjög alvarlegt ef ríkisstjórnin er að feta í þá átt að óstöðugleiki verði raunin sem hann er í dag og ef enn á að auka á óstöðugleikann.

Þegar maður skoðar einstök ráðuneyti, hæstv. forseti, kemur í ljós m.a. að utanríkisráðuneytið með öllum sendiráðunum og öllu hækkar um 21,2% á milli frumvarpa. Hvar eru nú samfylkingarmennirnir, hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og ég ætla að benda á að formaður Samfylkingarinnar er komin í utanríkisráðuneytið, hvar er hv. þingmaður nú? Framlög til utanríkisráðuneytisins hækka um 21,2% á milli ára. Á meðan aðrir þingmenn benda réttilega á það að öryrkjar og eldri borgarar fá trúlega kjaraskerðingu á næsta ári, hvar eru þá hinar digru yfirlýsingar samfylkingarmanna og gamla góða Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar? (Gripið fram í: Samfylkingarskerðingin.) Það er alveg ljóst að Samfylkingin hefur kokgleypt allar hugsjónir sínar og öll sín stefnumál á Þingvöllum síðastliðið vor bara til að fá stólana. Margt sem birtist í þessu frumvarpi er svo langt, langt frá því sem Samfylkingin hefur lagt til úr þessum ræðustól sem hlýtur að benda til þess að hún hafi ekki haft mikil áhrif á þetta fjárlagaferli eða er gersamlega búin að gleyma þeim málflutningi sem hún hélt uppi fyrir síðustu kosningar. Einnig veltir maður því fyrir sér hvernig ungum sjálfstæðismönnum líður þessa dagana.

Nú er ljóst að heildarútgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu aukast næstu missirin eins og ég sagði áðan og gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að þetta hlutfall verði 34% árin 2008 og 2009. Svo hátt hefur hlutfallið ekki verið síðan 1993. Þetta eru afrek fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og þvílíkar hugsjónir hjá ungum sjálfstæðismönnum hér á þinginu sem hafa talað fyrir því að minnka ríkisbáknið. Það er mark á þessum mönnum takandi. (Gripið fram í: Þeir eru orðnir gamlir.) Báknið þenst og þenst út og hvar er stefna og hvar eru hugsjónir ungra sjálfstæðismanna? Endurspeglast þær í þessu frumvarpi? Nei, heldur betur ekki. Endurspeglast áherslur Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í frumvarpinu? Heldur betur ekki. Þessir flokkar hafa einfaldlega gefist upp á því að nota fjárlögin sem alvöruhagstjórnartæki. Ég ætla að leyfa mér að koma með þann spádóm að þegar Seðlabankinn mun tjá sig um þessi þenslufjárlög og þegar ýmsar greiningardeildir skoða þessi fjárlög muni hæstv. fjármálaráðherra ekki fá 10 á því prófi. Ríkisstjórnin mun fá falleinkunn. Við skulum líka hafa í huga að hér er einungis um frumvarp að ræða og hefðin hefur verið sú að upphæðirnar hækka frekar í meðförum þingsins en lækka þannig að hér er um mikið þenslufrumvarp að ræða.

Hæstv. forseti. Mig langar að spyrja að því hvort hæstv. heilbrigðisráðherra sé á svæðinu.

(Forseti (MS): Hæstv. heilbrigðisráðherra mun vera í húsinu og forseti mun gera ráðstafanir til að kalla hann til ef það er ósk hv. þingmanns.)

Takk fyrir það.

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég óska eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra eru heimildir í 6. gr. frumvarpsins og raunar hefur umrædd heimild verið í fjárlagafrumvarpinu mörg síðustu ár. Það var reyndar þáverandi heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins sem kom þessari heimild þar inn, enda er það svo að þeim ágætu ráðherrum hefur verið mjög vel treystandi fyrir því að þróa heilbrigðiskerfið og hafa staðið fyrir því að við eigum eitt besta heilbrigðiskerfi í heiminum í dag. Nú kveður við nýjan tón. Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að gleypa heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Í heimild 7.5 stendur, með leyfi forseta:

„Að heimila sjúkrahúsum að taka þátt í eða eiga samstarf við fyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. Samningar, sem fela í sér fjárskuldbindingar, skulu lagðir fyrir ráðherra heilbrigðismála og fjármála til staðfestingar.“

Við höfum túlkun hæstv. fjármálaráðherra á heimild 7.8 þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Að selja Grímseyjarferjuna m/s Sæfara og ráðstafa andvirðinu til kaupa eða leigu á annarri hentugri ferju.“

Hæstv. ráðherra gengur svo langt í túlkun sinni á þessari annars auðlesnu heimildargrein að hann telur að um ótakmarkaða heimild sé að ræða fyrir framkvæmdarvaldið sem þingið hafi veitt. Þess vegna tel ég eðlilegt að við, hv. þingmenn, þurfum að átta okkur á því, í ljósi skilnings ráðherrans á heimildargreinum almennt, hvaða vald þingið er að framselja með þessum hætti. Um milljarðamál getur verið að ræða, einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Í raun og veru á ég von á því, náum við ekki breytingum á heimildargreinum fjárlagafrumvarpsins, að þetta verði eitt aðalumræðuefnið við 2. umr. fjárlaganna, a.m.k. vil ég beita mér fyrir því. Því miður er hæstv. heilbrigðisráðherra ekki á svæðinu þannig að ég verð að biðja hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá. Það er mjög mikilvægt við þessa umræðu, og fyrir fjárlaganefndina sem á mikið verk fyrir höndum, að fá það á hreint hjá hæstv. heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra hvort eitthvað standi til að eiga við heilbrigðiskerfið á næstunni með því að nýta þessar heimildargreinar þegar þingið verður búið að afgreiða fjárlög fyrir árið 2008.