135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[17:49]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að svara hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þannig að þó að honum finnist þetta ekki vönduð áætlunargerð þá truflar þetta mig afskaplega lítið. Það mundi trufla mann ef tekjurnar væru langt undir áætlunum. Það kæmi sér náttúrlega illa fyrir ríkissjóð. En á meðan áætlunin gerir ráð fyrir minni tekjum en í rauninni koma í kassann þá truflar það mig ekki neitt. Og fyrst hv. þingmaður vísar sérstaklega til Kópavogs þá höfum við einmitt lent í því sama þar. Þar hefur fleira spilað inn í, t.d. úthlutanir á lóðum sem kannski hafa komið inn fyrr en við ætluðum, sem er í raun nokkuð sem hefðum átt að geta stjórnað sjálfir, og þenslan í þjóðfélaginu sem hefur skilað meiri tekjum inn í kassann þar rétt eins og hjá ríkissjóði.

Áætlunarbúskapurinn sem slíkur hefði kannski tekið á þessu með markvissari hætti en við höfum búið til þannig samfélag hér að fólk hefur frelsi til athafna, sem betur fer. Þegar vel gengur í efnahagslífinu, ég tala nú ekki um á heimsvísu, þá njóta menn athafnafrelsis og taka ekki mið af því hvað við í þessum sal segjum eða hvað fjármálaráðuneytið segir. Menn framkvæma eins og þeim dettur í hug og njóta síðan uppskerunnar sem skilar sér aftur í blómstrandi efnahagslífi sem eykur tekjur ríkissjóðs umfram það sem áætlað hefur verið. Það truflar mig ekki.