135. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2007.

fjárlög 2008.

1. mál
[19:28]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að ítreka, eins og ég gerði í upphafi máls míns í morgun, þakkir og hamingjuóskir til hæstv. fjármálaráðherra, ráðuneyta og annarra sem komið hafa að gerð fjárlagafrumvarpsins. Þó að ólíkar skoðanir hafi komið fram varðandi innihaldið í frumvarpinu þá er það einfaldlega svo að við sem fyllum þennan stóra sal þingheims getum öll verið stolt af þeirri miklu vinnu sem starfsmenn ráðuneyta og stofnana hafa lagt fram á umliðnum vikum og mánuðum í gerð frumvarpsins. Auðvitað eigum við eftir að takast á eða alla vega að ræða, á milli 1. og 2. umr., um einstaka hluti efnislega, líkt og komið hefur fram í umræðum í dag.

Ég vil þó áður en ég fer yfir hið tæknilega í málinu víkja örfáum orðum að hlutum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson kom að í ræðu sinni og varða orkumál. Hv. þm. Ögmundur Jónasson leiðrétti hv. þm. Illuga Gunnarsson, eða lagði út af orðum varðandi mál er lúta að LSR þar sem hann þekkir vel til. Enda er hann að mig minnir enn stjórnarformaður LSR og hefur sérstaka þekkingu á starfsemi sjóðsins.

Virðulegi forseti. Ég á sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesja, sem hv. þingmaður ræddi mikið um í dag. Hann vísaði til ákveðinna breytinga orðið hafa síðasta sólarhring. Ég vil einfaldlega leiðrétta aðila í þeirri umræðu. Þannig er að í Hitaveitu Suðurnesja eru nokkrir hluthafar sem hafa gert með sér hluthafasamkomulag sem byggir á því að hver um sig virði rétt annars óháð eignarhlut. Það byggir líka á því að aðilar hafi gagnkvæman forkaupsrétt á hlutum hver annars svo fremi sem þeir hlutir hafi ekki áður verið tilkynntir til sölu. Þetta þýðir að þeir hluthafar sem að hluthafasamkomulaginu standa, sem eru fjórir, Reykjanesbær, Geysir Green, Orkuveita Reykjavíkur og Hafnarfjarðarbær, hafa ákveðið að hlutir skipti ekki um eiganda nema um það náist samstaða. Ég er með öðrum orðum að að segja að þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar á umliðnum sólarhring eiga eftir að fara í efnislega umræðu hjá eigendahópnum. Ég vil fyrir hönd þess eiganda sem ég sit í stjórn fyrir, Hafnarfjarðarbæjar, lýsa því yfir að sú umræða hefur ekki farið þar fram. Sú umræða hefur ekki farið þar fram.

Það er ljóst að sé ætlunin að gera einhverjar breytingar á Hitaveitu Suðurnesja sem hlutafélagi, uppskiptingu eða annað, eins og hv. þingmaður kom að, þá þarf sú umræða að fara fram hjá öllum eigendum. Ég vara því menn við því að úttala sig um málið áður en allir eigendur eru búnir að fjalla um það. Við megum ekki fella dóma í þingsölum um mál sem eiga eftir að koma til umræðu hjá eigendahópnum. Ég lýsi því einfaldlega hér yfir að sú umræða hefur ekki farið fram hjá einum af stærri eigendum hitaveitunnar, Hafnarfjarðarbæ, sem hefur um langan tíma verið næststærsti eigandi í hitaveitunni. Auðvitað breyttist það eftir það hluthafasamkomulag sem gert var í sumar.

Hafnarfjarðarbær hefur hins vegar ekkert haft út á aðra eigendur í hlutafélaginu að setja, hvorki þá sem hafa verið eigendur um langt skeið né þá sem hafa komið nýir inn enda var tekin ákvörðun um að selja hlut ríkisins í Hitaveitunni á opnum markaði. Það þýddi að ákveðnir aðilar gátu eignast hluti í félaginu. Eftir á að hyggja er ljóst að að ríkið fékk í sjálfu sér ansi góða sölu, eins og sagt er á markaði. Verðið var mun hærra en það verðmat sem lá fyrir. Ég vildi koma þessu á framfæri í þessari umræðu þannig að einstaka hv. þingmenn Vinstri grænna færu ekki fram úr því sem er að gerast úti í sveitarfélögunum.

Að lokum vil ég einfaldlega ítreka að helstu niðurstöður þessa fjárlagafrumvarps eru þær að það er tekjuafgangur upp á 31 milljarð kr., sem jafngildir 2,4% af landsframleiðslunni. Lánsfjárafgangur er jafnframt áætlaður 32 milljarðar kr.

Nú mun fjárlaganefnd taka við frumvarpinu og vinna samkvæmt 25. gr. laga um þingsköpin og getur nefndin vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með sama hætti geta aðrar fastanefndir ákveðið að fjalla um einstaka þætti lagafrumvarpsins.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór yfir ákveðna atriði hér á undan og til hans og efnahags- og skattanefndar verður vísað frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarpsins. Miklu máli skiptir að menn haldi tímamörk í þessari umræðu út í fastanefndunum og í umræðu við þá aðila sem rætt er við. Tímamörkin þurfa að halda og þeir sem hafa verið á þingi lengur en ég vita að umfangið er gríðarlega mikið og áætlun fjárlaganefndar gengur út á að 2. umr. — en áætlunin er gerð í samráði við forseta þingsins — fari fram 29. nóvember. Þar af leiðandi liggur fyrir nákvæm starfsáætlun næstu daga og vikur. Við munum í næstu viku fá til 1. umr. fjáraukalögin og gerum ráð fyrir að afgreiða þau viku fyrr, eða að 2. umr. fari fram 20. nóvember.

Ég ítreka að hlutverk fjárlaganefndar er að fara yfir það verk sem fjármálaráðuneytið hefur skilað. Það mun gert í góðu samstarfi við fjármálaráðuneytið eins og verið hefur hingað til. Hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað ákveðnar breytingar á vinnulagi og hvatt til rammafjárhagsáætlunargerðar líkt eins og Alþingi sjálft. Það hefur komið fram í stefnuyfirlýsingum forustumanna stjórnarflokkanna. Ég hef ekki heyrt annað en að stjórnarandstaðan taki undir þau sjónarmið.

Það hefur verið lögð áhersla á það í umræðunni í dag að við viljum frekar horfa til þess eftirlitsþáttar sem lýtur að þinginu er varðar framkvæmd fjárlaga. Það er ljóst að að mörgu er að hyggja á næstu dögum og vikum. Ég óska eftir því að eiga gott samstarf við alla aðila sem að þessu koma og ekki hvað síst að fólk geri sér grein fyrir því, þingmenn sem aðrir, að það verður gríðarlegt álag á þinginu og starfsfólki þingsins. Við þurfum að horfa til þess að það álag sé þá í sjálfu sér nýtt þannig að við yfirkeyrum hvorki okkur né starfsfólk þingsins.

Ágæti forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram í dag og vænti markvissrar umræðu á næstu vikum og dögum, ekki hvað síst við 2. og 3. umr. fjárlaga.