135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:18]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Á síðasta kjörtímabili átti ég sæti í iðnaðarnefnd Alþingis. Iðnaðarnefndin hefur með að gera undirbúning að byggðaáætlun sem samþykkt er til fjögurra ára hverju sinni á Alþingi og Alþingi er skylt að samþykkja. Á þeim tíma kom ég ásamt hv. fyrirspyrjanda að þeim málum og þá var ljóst að áhugi og stuðningur sveitarstjórna hvaðanæva af landinu var fyrst og fremst við að samgöngur á landsbyggðinni yrðu bættar, að menntamálum yrði sinnt af meiri dugnaði en áður hefur verið gert. Áherslan var á að auka menntunarúrræði á landsbyggðinni og bæta samgöngur. Þetta tvennt kom skýrt fram alls staðar. Núverandi byggðaáætlun sem við vinnum eftir tekur einmitt á þessum tveimur meginþáttum sem snúa að því að laga innra kerfi sveitarfélaganna og landsbyggðarinnar þannig að fólk geti búið þar og atvinnulíf þrifist þar betur.

Það er ekkert nýtt að fólk flytjist á milli staða vegna vinnu á Íslandi. Þetta hefur verið að gerast síðustu 100 árin á Íslandi. Það er ekki síst flutningur vinnuaflsins frá og til þeirra staða sem sækja sjóinn og vinna afla. Landbúnaðurinn, uppbygging orkuvera allt frá 1968, byggðist á tilflutningi á vinnuafli. Það er kostur í okkar samfélagi að fólk hefur sótt vinnuna, farið í ver. Það er fráleitt að kenna kvótakerfinu um þá fólksflutninga sem við höfum upplifað síðustu 100 ár. Það er útilokað að kenna því um. Fólk leitar auðvitað þangað sem tekjuöflunin er, þangað sem verðmætasköpunin er. Við eigum að leyfa fólki að ferðast þannig á milli. (Forseti hringir.) Ég vil treysta núverandi ríkisstjórn og hæstv. félagsmálaráðherra til að vinna úr þessu máli.