135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

fyrirhugaður flutningsstyrkur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

[14:20]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Í kjölfar lítilfjörlegra mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar þorskkvóta bárust þau skilaboð frá stjórnarheimilinu að uppi væru hugmyndir um að styrkja sérstaklega með allt að 200 þús. kr. þá sem vegna atvinnuleysis þurfa að flytja sig um set vegna slæms atvinnuástands. Það er út af fyrir sig gott mál að styrkja atvinnulaust fólk sem fær vinnu í öðru byggðarlagi og stendur frammi fyrir dýrum flutningskostnaði. Ég mæli ekki með því að slíkt ákvæði sé tekið úr lögum. En að koma með þessi skilaboð í kjölfar einhverrar afdrifaríkustu ákvörðunar sem ríkisstjórn á Íslandi hefur tekið, um niðurskurð á þorskkvótanum, ber því miður aðeins vott um þá uppgjöf sem ríkir á stjórnarheimilinu gagnvart þeim vanda sem blasir við víðast á landsbyggðinni.

Ákvörðunin um að skerða þorskkvótann var risastór ákvörðun. Ákvörðun sem gæti gert það að verkum að hátt í eitt þúsund manns gæti misst vinnuna á næstu 6–12 mánuðum. Ákvörðunin gæti jafnvel leitt til þess að heil byggðarlög muni aldrei jafna sig. Hvarvetna í grannríkjum okkar hafa stjórnvöld í frammi aðgerðir til að stýra eða hafa hönd í bagga með byggðaþróun og hamla gegn því að landsvæði leggist í eyði. Hér á landi eru stór landsvæði þar sem byggð hangir á bláþræði, jafnvel heilir landshlutar eins og Vestfirðir og Norðausturhluti landsins þar sem fólksfækkun hefur verið mikil og meðaltekjur langt undir meðaltali og þarf ekki að ræða það sérstaklega. Hagvaxtarstigið er allt annað á þessum svæðum heldur en á höfuðborgarsvæðinu.

Ég skynja því miður eingöngu uppgjafartón og úrræðaleysi úr ræðu hæstv. félagsmálaráðherra. Ég tel það einkennandi fyrir þá ríkisstjórn sem ekki hefur setið í lengri tíma heldur en fimm mánuði. Ég beini þeim vinsamlegu tillögum til ríkisstjórnarinnar um að hún hysji upp um sig og (Forseti hringir.) sendi frekar þau skilaboð til þjóðarinnar (Forseti hringir.) að hún muni berjast fyrir því að halda landinu í byggð.