135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:00]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kann að vera spurning um útfærsluatriði hvernig ráðist verði í þetta verkefni. Hv. þingmaður telur að verkefnið, eins og það er tilreitt hér, sé of umfangsmikið og stórt til þess að hægt sé að taka á því með þessum hætti. Ég vil minna á að við höfum af því áhyggjur að það kunni að vera of stórt viðfangsefni fyrir eina þjóð að kokgleypa öll þau áform sem ríkisstjórnin hótar okkur nú með. Er ég þar að vísa aftur í einkavæðingaráformin í heilbrigðisþjónustunni og í orkugeiranum. Ég mun síðar við umræðuna taka upp ýmsa þætti sem hv. þingmaður vék að um heilbrigðismálin og mismunandi rekstrarform þar.

En aðrar tillögur hafa komið fram. Fulltrúi Framsóknarflokksins við umræðuna sagði, á svipaðan hátt og hv. þingmaður gerði, að sér fyndist of bratt að stöðva öll áform um einkarekstur eða einkavæðingu í velferðarþjónustunni á meðan rannsókn af þessu tagi færi fram. Fulltrúi Framsóknarflokksins kom með málamiðlunartillögu hvað þetta varðar. Tók undir með hv. þingmanni. Hún var sú að nema brott úr lögum heimildarákvæði, sem þar er að finna, til framkvæmdarvaldsins um einkavæðingu. Nokkuð sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að varðandi heimildarákvæði um sölu á orkufyrirtækjum t.d. Hv. þingmaður, fulltrúi Framsóknarflokksins við umræðuna, vék að heilbrigðismálunum hvað þetta snerti. Þannig að þetta er útfærsluatriði sem við kunnum að vera til samkomulags um ef menn fallast á þá meginhugmynd sem við leggjum fram, (Forseti hringir.) að þessi mál verði brotin til mergjar.