135. löggjafarþing — 5. fundur,  9. okt. 2007.

markaðsvæðing samfélagsþjónustu.

3. mál
[16:36]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi Öldung og samninginn við það fyrirtæki um að veita hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða. Ég tek undir það að mér finnst ekki æskilegt að semja um slíka þjónustu við aðila sem starfar á arðsemisforsendum. Ég verð að viðurkenna það. Það kunna að vera í því fólgnir einhverjir fordómar. En mér hugnast ekki að fara inn á þær brautir. Ég mæli með því að ríkið í slíkum samningum gangi út frá því að hafa að minnsta kosti mjög stífar takmarkanir á mögulegum arðgreiðslum.

Hins vegar vil ég segja það því fyrirtæki, Sóltúni, til framdráttar og ríkinu líka, að þar er um að ræða mjög vel skilgreinda þjónustu sem veitt er og um samið. Vistmenn fá mjög góða þjónustu þar og plássin eru mjög eftirsótt, sérstaklega í samanburði við aðrar öldrunarstofnanir eða fyrirtæki.

Ríkisendurskoðun hefur einmitt gert athugasemdir við það að ríkið hafi ekki samið við aðra aðila sem veita þessa þjónustu, hvort sem það eru sjálfseignarstofnanir eða undir öðrum formerkjum, ekki samið við þá um þjónustuna. Þeir fá greitt og enginn virðist fylgjast með því að hinir öldruðu fái þá þjónustu sem ríkið borgar fyrir. Mér finnst að það eigi að taka til að því leytinu til og að ríkið eigi að keppast við að gera samninga við þá sem veita þessa þjónustu. Það mundi væntanlega heita einkarekstur eða jafnvel einkavæðing í skilningi hv. þm. Ég sé ekkert athugavert við það. Þetta er fyrirkomulag sem hefur byggst upp og hefur að mörgu leyti reynst vel. Það þarf að bæta það og það sendur upp á ríkið að beita sér fyrir því.